Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 16:42:13 (333)

1999-10-11 16:42:13# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[16:42]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka undir þakkir til hv. flutningsmanna fyrir að flytja þetta frv. og þá ágætu umræðu sem því fylgir og er nauðsynleg.

Í máli hv. frsm. kom fram að hvað varðar sölu á ríkisbönkunum sé um þrjár leiðir að ræða. Í fyrsta lagi að aðhafast ekkert, að halda þeim áfram ríkisbönkum. Í öðru lagi að selja lítinn hluta, hin svokallaða norska leið eins og hv. þm. nefndi, en ríkið yrði þá meirihlutaeigandi áfram. Þriðja leiðin er sú að selja nánast allt með litlum takmörkunum.

Frv. eru viðbrögð við þriðju og síðustu leiðinni eins og fram kom í framsöguræðu. Ég er sammála þeirri leið, m.a. af því að ríkisbankarnir hafa í raun staðið sig illa. Þar hefur ekki verið samkeppni og kostnaður við rekstur þeirra er óheyrilegur og mun meiri en í nágrannaríkjum okkar og á því þarf að taka. Ég er líka mjög sammála þeim pólitísku markmiðum sem hv. þm. rakti, þeim markmiðum að koma í veg fyrir mikla eignaraðild fámenns hóps með hagsmuni neytenda og í rauninni þjóðfélagsins alls í huga. Fákeppni er af hinu vonda og undir þau pólitísku markmið tek ég.

En þá koma þessar en-spurningar og í rauninni eru það tvær spurningar sem ég vil bera fram. Annarri hefur reyndar verið svarað að hluta til en ég vil fá það fram, herra forseti, hjá hv. þm. hvort hann sé að ræða um dreifða eignaraðild í byrjun eða varanlega, sem sagt að setja takmarkanir á eftirmarkað. Hins vegar sé svo er ágætt að gefa hv. þm. færi á að koma hér aftur til þess að skerpa á því hvort þær takmarkanir sem nefndar eru í frv. muni nokkurn tíma halda. Hér hafa verið nefndir fóstbræður, vinir og vandamenn, og Íslendingar eru nú taldir þjóða fremstir í því að finna smugur. Þá er spurningin þessi: Ef ákvæði heldur ekki er þá ekki lagasetningin vond?