Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 17:31:07 (344)

1999-10-11 17:31:07# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[17:31]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Það hefur oft komið fram í máli mínu og annarra sem tala fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs í þessu máli að skilningur okkar á verulega dreifðri eignaraðild sé sá að þessum stofnunum sé haldið í eigu þjóðarinnar allrar, 275 þúsund einstaklinga, en ekki takmörkuð við fáeina aðila sem hafa fjárráð til að kaupa sig inn í þessa eign. Við skulum minnast þess að þegar reglur voru settar um sölu ríkisins á hlutnum í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins þurfti viðkomandi að hafa 6 millj. kr. upp á vasann til þess að teljast gjaldgengur. Þetta er fyrsta atriðið og við erum vissulega á þessu máli.

Takmarkið er dreifð eignaraðild vegna þess að við teljum að hún skipti máli. Eru bankar valdastofanir eða þjónustustofnanir? Þeir eru hvort tveggja. Það skiptir máli hverjir stýra fjármálalífi þjóðarinnar, hverjir hafa milljarðana til ráðstöfunar, hverjir veita lánin og á hvaða forsendum ákvarðanir eru teknar. Þá skiptir máli að menn komi að úr sem flestum áttum. Ég held að það hafi verið gott kerfi sem við höfum haft í ríkisbönkunum, að hafa þar inni fulltrúa úr ýmsum öngum þjóðlífsins. Þeir hafa verið skipaðir af stjórnmálaflokkunum og ég held að það hafi verið til góðs. Nú á að afnema það kerfi og þá er hætta á því að þeir sem koma til með að stýra fjármálastofnunum komi allir úr einni átt. Sú átt heitir Sjálfstæðisflokkurinn.