Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 17:33:24 (345)

1999-10-11 17:33:24# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[17:33]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þm. hafi svarað þeim fyrirspurnum ágætlega og nokkuð skýrt sem ég bar fyrir hann. Ég held líka að hér hafi komið fram sá grundvallarvilji sem hv. þm. stendur fyrir og hefur gert með einum eða öðrum hætti í þinginu. Hann telur að stofnunum eins og þessum sé betur fyrir komið í höndum ríkisins en í höndum einkaaðila. Hann telur betra að fulltrúar stjórnmálahreyfinga fari þar frekar með stjórnina en þeir sem þar eiga beinna hagsmuna að gæta. Ég held að þetta hafi verið nokkuð skýrt.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að við erum þarna ekki samstiga og það liggur fyrir. Ég held að ég hafi fengið það fram sem ég vildi frá hv. þm. og ég þakka honum fyrir skýr svör.