Dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 18:01:24 (352)

1999-10-11 18:01:24# 125. lþ. 6.4 fundur 6. mál: #A dreifð eignaraðild að viðskiptabönkum og öðrum lánastofnunum# (breyting ýmissa laga) frv., LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[18:01]

Lúðvík Bergvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. hefur gert ágæta grein fyrir viðhorfum sínum í þessu máli. Ég get hins vegar bent honum á að Samfylkingin hefur nú þegar kynnt frv. til breytinga á þeim atriðum sem hann nefndi sérstaklega, hvað varðar fjármálaeftirlit, að styrkja viðskiptasiðferði, samkeppnislög o.s.frv. En það var ekki aðalatriðið.

Ég held, virðulegi forseti, að mikilvægast sé að hæstv. forsrh. geri örlitla grein fyrir öðru, þar sem hann gerði mjög skýra grein fyrir viðhorfum sínum um dreifða eignaraðild í viðtali í Morgunblaðinu og nokkuð hefur verið vitnað til í þessari umræðu. Í kjölfar sölunnar á bréfum í Fjárfestingarbanka atvinnulífsins eignaðist eignarhaldsfélag Kaupþings og sparisjóðanna stóran hlut í bankanum. Ef mig misminnir ekki þá var sá hlutur um það bil 28%. Þegar það lá ljóst fyrir, vitaskuld í opinberum gögnum um þennan eignarhlut, þá heyrðist ekkert frá hæstv. forsrh. Hann ítrekaði ekki þau viðhorf sem fram komu í Morgunblaðsviðtali í ágústmánuði 1998. En eftir að þessi sami eignarhlutur sem þá var 28% er seldur eignarhaldsfélaginu Orca hf. sem skráð er í Lúxemborg, að ég best veit, þá kemur hæstv. forsrh. fram og lýsir því yfir að það sé algerlega nauðsynlegt að kúvenda í einkavæðingu þessa ríkisbanka og koma í veg fyrir að hann lendi í höndum á fáeinum aðilum.

Mín spurning til hæstv. forsrh. er þessi: Hvað breyttist frá því að eignarhaldsfélög Kaupþings og sparisjóðanna eignuðust þennan hlut þar til eignarhaldsfélagið Orca eignaðist sama hlutinn? Hver er eðlismunur á þeim félögum sem þarna eiga nánast sama stóra ráðandi hlutinn?