Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 18:25:41 (360)

1999-10-11 18:25:41# 125. lþ. 6.5 fundur 8. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál. 21/125, Flm. ÖJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[18:25]

Flm. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Sú till til þál. sem hér kemur til umræðu er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Alþingi ályktar að skipuð verði nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem athugi hlutverk og verkaskiptingu ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila. Þar til nefndin hefur skilað álitsgerð verði öllum frekari áformum ríkisstjórnarinnar um einkavæðingu og einkaframkvæmd slegið á frest.``

Þessi tillaga var einnig flutt á 124. löggjafarþinginu en er nú endurflutt, ekki vegna þess að hún er góðra gjalda verð að dómi okkar og sígild heldur kannski ekki síður vegna hins að við erum vongóð um að hún fái hugsanlega betri móttökur nú en á síðasta þingi því nú er raunverulega öllum orðið ljóst hver nauðsyn það er að staldra við og endurmeta öll fyrri áform.

Fram hafa komið mjög alvarlegar brotalamir í einkavæðingarstefnu ríkisstjórnarinnar, bæði í framkvæmd og rekstri stofnana sem hafa verið einkavæddar. Ég vísa þar t.d. til rafmagnseftirlitsins sem nú er komið undir Löggildingarstofu og það eru einkaaðilar, svokallaðar skoðunarstofur sem eiga að sinna þessu, en í ljós hefur komið að miklar og alvarlegar brotalamir eru þar. Þetta nefni ég sem dæmi um þar sem ekki hefur tekist til sem skyldi og síðan náttúrlega það mál sem hér hefur verið til umræðu, einkavæðing bankanna og fjármálastofnana samfélagsins. Þar eru að ég held flestir á því máli að það skorti aðhald á verðbréfamarkaði og eftirlit og nauðsynlegt sé að setja lög sem tryggi dreifða eignaraðild. Það er alla vega skoðun mjög margra að þess sé þörf.

Á vegum ríkisstjórnarinnar hefur verið unnið að einkavæðingunni af hálfu svokallaðrar einkavæðingarnefndar en aðild að henni eiga eingöngu fulltrúar stjórnarflokkanna, Sjálfstfl. og Framsfl. Við bendum á í greinargerð með þessari þáltill. að nauðsynlegt sé ,,að um allar grundvallarbreytingar sem gerðar eru á samfélagsþjónustunni fari fram vönduð og lýðræðisleg umræða til að tryggja tvennt: Í fyrsta lagi séu breytingar gaumgæfðar frá öllum sjónarhornum áður en í þær er ráðist. Vönduð vinnubrögð eru forsenda þess að vel takist til. Í öðru lagi er eðlilegt að freista þess að breytingar séu þannig úr garði gerðar að um þær sé tryggð víðtæk þjóðfélagssátt.

Nú er það svo og var reyndar nefnt, það mun vera hæstv. fjmrh. sem sagði hér um daginn að allir væru á einu máli um ágæti einkavæðingar og nefndi þar sérstaklega einkaframkvæmdina og vísaði þar til Bretlands. Ég andmælti þessu úr sæti mínu í þingsalnum og hvatti til þess að við tækjum þessa umræðu upp þar sem menn tefldu fram röksemdum, upplýsingum og staðreyndum og reyndu að meta málin í ljósi slíkra upplýsinga.

[18:30]

Ég hef hér undir höndum mikinn bunka af margvíslegum plöggum og skýrslum um reynslu Breta t.d. af einkaframkvæmdum. Hún er vægast sagt mjög slæm. Íslendingar hafa verið að feta sig inn á þá braut á liðnum árum og reyndar lít ég svo á að ekki beri að gera svo ýkjamikinn greinarmun á markaðsvæðingu og einkavæðingu. Markaðsvæðingin hefur verið rauður þráður í öllum skipulagsbreytingum sem hafa verið framkvæmdar hjá hinu opinbera á liðnum árum og einkavæðingin breytir því einu, það getur skipt máli, að menn fara að heimta arð út úr starfseminni. En markaðsvæðingin sem slík getur haft mikil áhrif á alla þjónustustarfsemi á vegum hins opinbera. Reyndar er þetta ekkert alveg nýtt af nálinni. Það er langt síðan menn tóku upp slíka háttu. Ég man eftir því t.d. þegar ég var starfandi hjá sjónvarpinu að þá var þessi hugsun mjög sterk, ekki bara í okkar ríkisútvarpi heldur í samsvarandi stofnunum á Norðurlöndunum, að búa til úr öllum rekstrarþáttum sjálfstæðar einingar og reka þær sem sjálfstæðar markaðseiningar. Þannig keypti fréttastofa þjónustu af leikmyndadeild og kvikmyndadeild og þar fram eftir götunum.

Síðan gerist það að til sögunnar kemur mjög hagsýnn og útsjónarsamur fréttastjóri. Menn sjá að hann er farinn að kaupa eða leigja sjónvarpstökulið frá fyrirtækjum úti í bæ á sama tíma og starfsmenn sjónvarpsins sátu auðum höndum í kvikmyndadeildinni. Menn fóru að spyrja hverju þetta sætti. Jú, þá kom á daginn að þeir höfðu verðlagt sig of hátt. Fréttastofan hagnaðist að sjálfsögðu á því fyrirkomulagi. Hún hafði meira til ráðstöfunar en sjónvarpið tapaði. Þannig getur það verið í þjóðfélaginu öllu að þótt það kunni að reynast ódýrara og hagkvæmara frá þröngum sjónarhóli að beita markaðslögmálum, þá getur það komið þjóðfélaginu í koll þegar málin eru skoðuð í víðara samhengi.

Ég ætla að taka annað dæmi. (Gripið fram í: Er það ... að fréttadeildin verðleggi sig of hátt?) Nei. Þetta er bara spurning um innra bókhald. Það er hagkvæmt að þetta sé rekið allt saman á skynsamlegum nótum og menn nýti starfsmennina vel. En ég ætla að taka annað dæmi sem við höfum núna úr íslensku stjórnsýslunni.

Menn hafa tekið upp þann hátt að ríkislögregluembættið leigir umdæmunum bifreiðar og búið er að koma á viðskiptasambandi á milli þessara aðila. Umdæmin greiða ríkislögreglustjóraembættinu fyrir afnot af bifreiðunum í kílómetragjaldi. Þetta var nokkuð hátt, reyndar er nýlega búið að lækka þetta, en þetta getur haft það í för með sér að embættin sjái hag sinn fólginn í því að leggja bílunum, láta þá keyra sem allra minnst. Þá veltir maður því fyrir sér hvar hagsmunagæslumenn almennings eru. Væntanlega eru það lögreglumennirnir sjálfir og starfsmennirnir sjálfir, sem vilja rækja verk sín og hlutverk sem allra best og þannig hefur það verið. En göngum skrefinu lengra, sem menn hafa verið að gera, og tengjum hagsmuni starfsmannanna sjálfra inn í þessa peningapúllíu. Við skulum segja að við tengjum þetta inn í skólann og inn á sjúkrahúsin þar sem kennararnir hafa verið að beita sér fyrir því að bekkir verði ekki of fámennir, inn á sjúkrahúsin þar sem starfsmennirnir hafa verið að beita sér fyrir því að sjúklingarnir séu ekki sendir of snemma heim. Ef við segjum nú við þessar stofnanir og stjórnendur þeirra: Þið ráðið algerlega hvernig með peningana er farið, líka launasetninguna. Þetta er að gerast, menn eru að feta sig inn á þessa braut. Þá er hætt við því að þeir sem áður sinntu hagsmunagæslunni fyrir almenning og sáu til þess að bílarnir voru keyrðir, bekkirnir yrðu ekki of smáir, sjúklingarnir yrðu ekki sendir heim, eiga hagsmuna að gæta í því að ná þessum peningum til sín, hugsanlega með því að fjölga í bekkjum, senda sjúklingana fyrr heim, keyra lögreglubílana minna og þar fram eftir götunum. Það er þessi vandi sem menn sjá fyrir sér í einkavæðingunni, t.d. í Bretlandi, að hagsmunagæslan fyrir almenning sem áður var hjá hinum ,,óábyrgu starfsmönnum`` sem voru óháðir öllum markaðssveiflum, er ekki lengur fyrir hendi. Hvað gera menn þá? Þá setja menn upp eftirlitsstofnanir á vegum sveitarfélaga eða ríkis, en þær verða sami aðilinn og á hagsmuna að gæta í því að ná tilkostnaðinum niður. Þetta er vandamál sem menn standa frammi fyrir.

Síðan er hitt að slíkar kerfisbreytingar eru yfirleitt þannig að þær hafa aukinn kostnað í för með sér. Ráðist er í dýrari lán. Það er meiri fjármagnskostnaður og þegar til lengri tíma er litið er framkvæmdin dýrari auk þess sem á tímum sem menn vilja stuðla að sveigjanleika, þá eru menn að binda sig hjá tilteknum aðilum til margra áratuga, í sjúkrastofnunum t.d. Það er varað við því af hálfu margra sem hafa kynnt sér slíkar rekstrarhliðar á málum að hið opinbera sé að binda sig á þann hátt til langs tíma, þetta sé ósveigjanlegt kerfi.

En hvers vegna er þetta þá gert og ekkert síður af verkamannastjórninni en íhaldsstjórninni? Það er enginn munur á því, ekki nokkur. Ég held að þeir séu bara enn þá harðari undir stjórn Tony Blairs. Hvers vegna? Vegna þess að þetta er geysileg freisting fyrir stjórnmálamanninn. Hann er að reyna að ná niður skuldum hjá hinu opinbera og vill ekki ráðast í skuldir og hann lætur einfaldlega Ístak reisa skólann og taka skuldirnar inn í sitt bókhald. Eina skuldbindingin sem hið opinbera gerir er að lofa rekstraraðilunum kúnnum, sjúklingum, skólanemum, öldruðum eða föngum. Það fer eftir því hver starfsemin er.

Hvað mun síðan gerast þegar fram líða stundir? Það sem mun gerast er að skattborgari framtíðarinnar sem fær hærri reikning mun að öllum líkindum þráast eitthvað við vegna þess að það kemur að því að borga þarf brúsann, ekki bara fyrir dýrari lán og dýrara fjármagn heldur líka fyrir arðinn sem tekinn er út úr þessari starfsemi eftir að maður gerir þetta að atvinnurekstri. Hvað gera menn þá? Þá koma menn með skólagjöldin, sjúklingagjöldin, notendagjöldin svokölluðu. Það er þetta sem ég óttast að muni gerast. Það kom mér því ekki á óvart þegar ég las bækling ríkisstjórnarinnar um einkaframkvæmd að þar skuli segja á bls. 9, með leyfi forseta:

,,Leggja ber áherslu á að sem stærstur hluti tekna rekstraraðila sé fenginn með notendagjöldum.``

Hvað þýðir þetta? Skólagjöld, sjúklingagjöld og þar fram eftir götunum. Og ég segi áður en við tökum upp þá stefnu, áður en við höldum áfram á braut einkaframkvæmdar með elliheimilin eða skólana, eigum við ekki að setjast niður og skoða reynslu annarra? Eigum við ekki að skoða reynslu t.d. Breta? Ég er hér með skrá yfir sjúkrahús sem hafa verið sett í kerfi einkaframkvæmdar, fyrstu áætlanir og síðan hvernig þetta hefur hækkað eftir að ráðist var í framkvæmdina. Bish\-op Auckland sjúkrahúsið hækkar um 100% frá áætlunum þar til komið er í framkvæmdina. Prósentutölur eru síðan frá 9 það neðsta, flestar 30--40 og upp í 116--120%. Eigum við ekki að setjast yfir þetta og skoða reynslu annarra þjóða og hvaða afleiðingar er líklegt að þetta hafi í för með sér? Við leggjum því til að menn fari gætilega í sakirnar, setjist yfir gögnin, rökin með og á móti og gaumgæfi einnig reynslu annarra þjóða.

Ég er með miklar upplýsingar um þetta efni. Við innan okkar hreyfingar höfum lagt talsverða vinnu í að skoða þetta og ég hvet til þess að þetta mál, ekki síður en ýmis önnur, verði tekin til alvarlegrar skoðunar. Er ekki ráð að setja niður þverpólitíska nefnd þó ekki sé til annars en að skoða gögnin?