Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 11. október 1999, kl. 18:40:20 (361)

1999-10-11 18:40:20# 125. lþ. 6.5 fundur 8. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál. 21/125, forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 125. lþ.

[18:40]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að ástæða sé til að fresta einkavæðingarstarfsemi okkar meðan nefnd á borð við þá sem hv. þm. mælti fyrir sé að störfum. Ég tel ekki að starfsemi okkar hafi farið illa af stað. Þvert á móti held ég að í öllum meginatriðum hafi hún heppnast. Auðvitað hafa kannski vissir þættir ekki farið með nákvæmlega eins og sem að var stefnt og betur hefði mátt gera en í öllum meginatriðum hefur þetta gengið vel.

Mér fannst hv. þm. Ögmundur Jónasson vera of trúaður á ríkisrekstur, að ríkisrekstur væri í raun svar við öllu, þjónustan væri betri og starfsmenn mundu, nánast vegna eðli máls, tryggja hag almennings. Við vitum það hins vegar að þegar opinberir starfsmenn hafa eingöngu séð um slíka þætti og engir aðrir fengið að keppa við þá hefur þjónustan verið allra, allra lökust. Þetta þekkjum við til að mynda frá hinum gömlu sósíalistísku ríkjum. Þar var þjónustan alræmd og fræg fyrir það að fólkið gat ekkert annað leitað og þjónustan var það sem við mundum kalla fyrir neðan allar hellur í nánast öllum greinum.

Nú hef ég sjálfsagt ekki fylgst jafn vel með einkavæðingarmálum í Bretlandi og hv. þm. Ég veit að hann hefur kynnt sér það vel og hans félagsskapur sem hann er í forsvari fyrir, en engu að síður þekki ég allmörg dæmi þess, við lestur upplýsinga um þau efni, að ánægja með þjónustu hefur farið stórvaxandi og vaxið mjög hjá neytendum þar sem einkavæðing hefur tekist vel. Nefni ég þar símann, vatnsveitur og gasveitur. Þar hefur verð lækkað á öllum þessum þáttum frá því sem það var þegar hið opinbera var með þá og þjónustuviljinn og þjónustustig snarhækkað. Um þetta eru mörg dæmi og margar skýrslur sem ég hef séð. Þannig er það, og það er þess vegna sem Blair hinn breski, sem er afskaplega vinsældaupptekinn maður, hneigist í þennan farveg og gengur jafnvel lengra en breska íhaldið sem svo er kallað, jafnvel mun lengra og hraðar og fer inn á svið sem þeir höfðu ekki getað hugsað sér áður. Þetta mundi hann ekki gera nema vegna þess að hann veit að það er vinsælt, því að það eru ær og kýr þessa ágæta manns að gera ekki neitt nema það sem er þokkalega og vel vinsælt. Þess vegna held ég að hv. þm. dæmi þetta allt of hart.

Við vitum líka að í gamla daga þegar einkasala og einkarekstur ríkisins var á þáttum sem þoldu samkeppni var þjónustan fyrir neðan allar hellur og þjónustustig, þjónustuvilji og hugsun stundum alveg fáránleg. Fram eftir öllu til að mynda hjá því góða fyrirtæki símanum, sem nú er farinn að fá samkeppni, var það þannig að það gat tekið hálfan mánuð til þrjár vikur að fá lengingu á símasnúru. Menn gátu ekki fengið nema annaðhvort 1 metra, 11/2 metra eða 7 metra og það komu tveir menn heim til þín eftir þrjár vikur með þessa 7 metra. Það vildi svo til að heima hjá mér var 11/2 metri of stuttur en 7 metra var alveg ómögulegt að hafa dinglandi á gólfinu. En það var ekki nokkur vinnandi vegur að fá annað en 7 metra eða 11/2 metra og tvo menn heim. Þó var þetta bara spursmál um skæri og að tengja saman vírinn. En ef ég hefði gert það hefði ég unnið skemmdarverk á símanum. Þannig var þetta hér um áraraðir hvernig sem skrifað var í Velvakanda og önnur fræðirit, ef kalla má svo virðulegu nafni. Hjá þessu varð ekki komist.

Við þekkjum það víða að þar sem fólkið átti ekki annars kost og menn gátu ekki farið neitt annað var þjónustulundin, því miður, takmörkuð. Auðvitað er mjög mikið af opinberum starfsmönum sem ekki eru þannig settir og langflestir þeirra vilja veita góða þjónustu, það vitum við vel. En einokunin varð til þess að forsvarsmennirnir, og eftir höfðinu dönsuðu síðan limirnir, töldu sig ekki þurfa að veita nema lágmarksþjónustu.

Hitt vil ég segja og það hef ég áður nefnt að einkaeinokun er ekki betri en opinber einokun, jafnvel verri. Þess vegna hef ég verið að tala um að það sé slæmt ef allt safnast á allt of fáar hendur í einkarekstrinum. Ég mundi því aldrei vilja ganga jafnlangt í einkavæðingu og Bretarnir gera og að því leyti er ég væntanlega vinstra megin við herra Blair, svo skrýtið sem það nú er, að ég vil fara mjög varlega í einkavæðingu á hlutum sem í eðli sínu fá ekki samkeppni og lúta að þjónustu sem talin er til innsta kjarna velferðarþjónustunnar. Ég vil auðvitað skoða kosti einkareksturs á þeim sviðum eins og hægt er, en ég vil fara afar varlega í einkavæðingu. Ég mun hins vegar kannski vitkast og færast til hægri og nálgast breska verkamannaflokkinn með tímanum í þessum efnum. En ég tel ekki nauðsynlegt að fresta framkvæmd einkavæðingar hjá okkur meðan þessi mál eru skoðuð í nefnd.

Ég vil líka nefna annað sem hv. þm. drap á. Hann sagði að um einkavæðinguna sæju fulltrúar aðila sem skipaðir væru af stjórnarflokkunum. Þetta er allt saman rétt. En ég tel að það sé hin rétta skipan vegna þess að menn fara ekki í einkavæðingu á neinu sem ríkið á án þess að fá heimild úr þessum sal og án þess að hér fari fram hin efnislega umræða, hin pólitíska umræða um réttmæti þess að slík breyting yrði á tilteknum þáttum ríkisins. Hitt er síðan framkvæmd á þeirri ákvörðun sem þingið hefur tekið og á undir framkvæmdarvaldinu. Ég er ósammála því sem hv. þm. sagði líka um það efni að þar ætti framlenging löggjafarsamkundunnar að koma til. Ég vil hafa skil á milli ákvörðunar um að rétt sé að breyta, selja eða færa rekstur í nýtt form og svo hins, framkvæmdarinnar á því. Um það getum við sjálfsagt deilt, en ég vil láta þessa skoðun mína koma fram.