Vöruhappdrætti SÍBS

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 13:40:07 (369)

1999-10-12 13:40:07# 125. lþ. 7.5 fundur 65. mál: #A vöruhappdrætti SÍBS# (gildistími) frv. 94/1999, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[13:40]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um vöruhappdrætti fyrir Samband íslenskra berklasjúklinga, nr. 18/1959. Með lögum nr. 13/1949 var Sambandi ísl. berklasjúklinga heimilað að stofnsetja og reka vöruhappdrætti og var þessi heimild til 10 ára. Þessi heimild hefur síðan verði framlengd um 10 ár í senn, nú síðast með lögum nr. 24/1989.

Samkvæmt 3. gr. laga um vöruhappdrætti fyrir Samband ísl. berklasjúklinga skal ágóða af happdrættinu varið til að greiða stofnkostnað við byggingarframkvæmdir vinnuheimilisins að Reykjalundi, til byggingar og rekstrar vinnustofa fyrir öryrkja og til annarrar félagsmálastarfsemi Sambands ísl. berklasjúklinga sem viðurkennd er af ríkisstjórninni.

Með frv. þessu er lagt til að heimild Sambands ísl. berklasjúklinga til rekstrar vöruhappdrættis verði framlengd um 8 ár, þ.e. til 2007. Slík framlenging væri í samræmi við gildistíma heimildar happdrættis Dvalarheimilis aldraðra sjómanna.

Herra forseti. Ég hef nú rakið efnisatriði þessa frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.