Framkvæmdarvald ríkisins í héraði

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 13:41:59 (370)

1999-10-12 13:41:59# 125. lþ. 7.6 fundur 66. mál: #A framkvæmdarvald ríkisins í héraði# (Fjarðabyggð, Kjalarneshreppur) frv. 95/1999, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[13:41]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Lög þessi hétu áður lög um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði en nafni laganna var breytt með lögum um dómstóla frá árinu 1998.

Með frv. þessu er lagt til að stjórnsýsluumdæmi sýslumanna verði 26 í stað 27. Tilefni þessarar breytingar er sameining Eskifjarðar, Neskaupstaðar og Reyðarfjarðar í eitt sveitarfélag sem fengið hefur nafnið Fjarðabyggð. Þetta nýja sveitarfélag nær yfir allt stjórnsýsluumdæmi sýslumannsins í Neskaupstað og hluta af stjórnsýsluumdæmi sýslumannsins á Eskifirði.

Af ýmsum ástæðum er óheppilegt að í einu og sama sveitarfélagi séu umdæmi tveggja sýslumanna. Í þeim efnum má helst nefna vandkvæði við innheimtu opinberra gjalda, framkvæmd löggæslu á hendur tveggja lögreglustjóra í einu og sama sveitarfélagi auk þess sem mörk stjórnsýsluumdæma sýslumanna ræðst af mörkum sveitarfélaga. Með hliðsjón af þessu er lagt til með frv. að embætti sýslumannsins í Neskaupstað verði lagt niður frá og með næstu áramótum.

Þótt embætti sýslumannsins í Neskaupstað verði lagt niður er gert ráð fyrir að þar verði áfram rekin skrifstofa sýslumanns og útibú lögreglu þannig að þjónusta við íbúa staðarins verði í meginatriðum sú sama og verið hefur. Þetta hefur aftur á móti í för með sér sparnað en þann ávinning er m.a. fyrirhugað að nýta með því að bæta við stöðu löglærðs fulltrúa hjá embætti sýslumannsins á Eskifirði og yrði hann búsettur í Fjarðabyggð.

Þá er enn fremur lagt til að lögunum verði breytt til samræmis við sameiningu Kjalarneshrepps og Reykjavíkur.

Herra forseti. Ég hef nú rakið efnisatriði þessa frv. og legg til að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.