Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 14:00:49 (376)

1999-10-12 14:00:49# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Það frv. til nýrra ættleiðingarlaga sem ég mæli fyrir var samið af sifjalaganefnd. Í sifjalaganefnd áttu sæti dr. Ármann Snævarr, fyrrv. hæstaréttardómari, sem var formaður nefndarinnar, Guðrún Erlendsdóttir hæstaréttardómari og Drífa Pálsdóttir, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumrn. Ritari nefndarinnar var Margrét Hauksdóttir, deildarstjóri í sama ráðuneyti.

Mikilvægur þáttur frv. varðar ákvæði sem þörf er á sem grundvelli að fyrirhugaðri fullgildingu Íslands á Haag-samningnum frá 29. maí 1993 um vernd barna og samvinnu varðandi ættleiðingar milli landa. Samningurinn hefur þegar verið fullgiltur af hinum norrænu ríkjunum með gildistöku ýmist 1997 eða 1998.

Samningnum er ætlað að samræma þau skilyrði sem sett eru af hálfu stjórnvalda aðildarríkja hans svo að ættleiðingar milli landa megi fara fram með hagsmuni barna í fyrirrúmi. Tilgangurinn með samningnum er að tryggja að við ættleiðingar milli landa séu grundvallarmannréttindi barna virt og að komið sé í veg fyrir brottnám barna og verslun með börn og að tryggja að samningsríki viðurkenni ættleiðingar sem fara fram í samræmi við samninginn.

Mjög mikilvægt er að frv. þetta til nýrra ættleiðingarlaga nái fram að ganga til þess að aðild að samningnum verði möguleg. Fjöldi fólks á biðlista hjá félaginu Íslensk ættleiðing bíður eftir aðild Íslands að samningnum sem er lykilatriði til að unnt verði að fá börn til ættleiðingar frá fleiri löndum en nú er.

Í tengslum við samningu þessa frv. fór fram víðtæk könnun á framkvæmd gildandi ættleiðingarlaga, nr. 15/1978, og einnig var höfð hliðsjón af þróun ættleiðingarlöggjafar á Norðurlöndum og víðar. Af þessu leiddi að lagt er til í frv. að ýmis nýmæli um ættleiðingar verði lögfest auk þess sem ég gat um áður um nauðsynleg ákvæði sem setja þarf sem grundvöll fyrir fyrirhugaðri fullgildingu á Haag-samningnum.

Þá eru í frv. ýmis ákvæði um sama efni og gildandi ættleiðingarlög fjalla um en þau gerð fyllri og ítarlegri en í þeim lögum.

Efnisskipan frv. sem ég mæli fyrir er á þann veg að það skiptist í átta kafla. Ákvæði I. og IV. kafla svara til efnis gildandi ættleiðingarlaga en II., III. og V.--VII. kafli eru ýmist nýir að formi til eða efni. Ákvæði III. kafla laganna eru ekki í frv., þau varða niðurfellingu ættleiðingar.

Í öllum norrænu ættleiðingarlögunum nema hinum dönsku og íslensku hefur heimild til niðurfellingar ættleiðingar verið afnumin og er það mjög í samræmi við nútímaviðhorf í ættleiðingarrétti.

Í I. kafla frv. er skipað ákvæðum um það hverjir veiti leyfi til ættleiðingar, sbr. 1. gr. frv. Í öðru lagi eru ákvæði um hverjir geti verið ættleiðendur almennt, sbr. 2. gr., og hverja megi ættleiða, sbr. 3. gr. Þá eru hin almennu skilyrði fyrir ættleiðingu tilgreind í 4. gr. en skilyrði um lágmarksaldur í 5. gr. Grunnþáttur í ættleiðingum er að samþykkis þess sem fer með forsjá barns, sbr. 7. gr., og barnsins sjálfs njóti við, ef það hefur aldur og þroska til. Efnisreglur um þörf á samþykki eru í 6. og 7. gr. en um form og efni samþykkisyfirlýsingar er kveðið á í 8. gr. Sérstök ákvæði eru um samþykki sem veitt er erlendis í 9. gr. og um afturköllun samþykkis er mælt í 10. gr. Þá koma ákvæði um umsagnir varðandi umsóknir um ættleiðingarleyfi í 11.--13. gr. Um gjald í tengslum við ættleiðingar er mælt í 14. gr.

Meðal mikilvægustu nýmæla í I. kafla er það að karl og kona sem verið hafa í óvígðri sambúð í a.m.k. fimm ár hafa sömu heimildir til ættleiðingar og hjón. Enn fremur heimild til handa einhleypum manni til að ættleiða barn ef sérstaklega stendur á og ættleiðing er talin ótvírætt barninu til hagsbóta. Heimild einhleypra einstaklinga til ættleiðingar hefur ekki áður verið lögskráð en einhleypum einstaklingum hefur nokkrum sinnum verið veitt ættleiðingarleyfi hér á landi. Styðst sú framkvæmd við stjórnsýsluhefð og þykir réttmætt að leggja til að þessi markaða stefna verði lögfest að þeim skilyrðum uppfylltum sem í frv. greinir.

Í gildandi ættleiðingarlögum eru ekki samfelld ákvæði um meðferð og úrlausn ættleiðingarmála og raunar er lítt fjallað þar um þessa hlið málsins. Þessar reglur hafa mótast af stjórnsýsluvenjum og verklagsreglum ráðuneytisins og um meðferð þessara mála gilda nú ákvæði stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Rök þykja þó vera til þess að festa ýmsar grunnreglur um þetta efni í ættleiðingarlögum og er lagt til að svo verði gert með ákvæðum II. kafla. Gefur það borgurunum gleggri innsýn í gangverk þess ferlis sem liggur að baki útgáfu ættleiðingarleyfis. Lagasetning hlýtur þó að miðast við meginreglur um þetta og til fyllingar koma svo ýmsar stjórnvaldsreglur.

Með ákvæðum þessa kafla er að því stefnt að treysta undirbúning að úrlausn ættleiðingarmála. Má einkum nefna nýmæli 17. gr. sem heimilar ráðherra að skipa þriggja manna sérfræðinganefnd er veiti faglega umsögn um einstakar umsóknir sem ráðuneytið æskir álits hennar um. Sú umsögn er þá til viðbótar við umsögn barnaverndarnefndar skv. 16. gr. Verulegt gagn gæti orðið að slíkri álitsgerð í ættleiðingarmálum þegar vafi leikur á hvort veitt skuli leyfi til ættleiðingar.

Í III. kafla frv. er í 22. gr. ákvæði um dómsmál vegna ákvörðunar dómsmálaráðherra um veitingu ættleiðingarleyfis þótt samþykki lögbærra manna liggi ekki fyrir, sbr. 19. gr. frv. Í tengslum við það eru svo ákvæði 23. og 24. gr. varðandi réttarfar o.fl.

IV. kafli frv. er einungis ein grein, 25. gr., sem fjallar um réttaráhrif ættleiðingar. Greinin er efnislega óbreytt frá gildandi ættleiðingarlögum.

Ákvæði V. kafla eru nýmæli í ættleiðingarlögum. Þar er kveðið á um að kjörforeldrar skuli skýra kjörbarni frá því að það sé ættleitt og að það skuli að jafnaði gert eigi síðar en þegar barn verður sex ára. Enn fremur er lagt til að kjörbarn sem orðið er 18 ára eigi rétt á að fá tiltækar upplýsingar um það frá dómsmrn. hverjir séu kynforeldrar þess eða fyrri kjörforeldrar.

VI. kafli frv. geymir ákvæði um ættleiðingar barna erlendis og eru þau nýmæli í ættleiðingarlögum. Almenn ákvæði ættleiðingarlaga eiga vitaskuld við um ættleiðingar sem fram fara á erlendum börnum hér á landi, bæði um það hver leysi úr ættleiðingarumsóknum, um almenn og sérgreind skilyrði ættleiðinga, umsóknir um þær og reglur um meðferð og úrlausn máls, réttaráhrif ættleiðinga o.s.frv. Við ættleiðingar milli landa reynir þó á ýmis sérstæð vandamál sem hafa m.a. orðið efni til Haag-samningsins frá 29. maí 1993. Ákvæði kaflans eru í tengslum við Haag-samninginn. Í 28. gr. frumvarpsins er kveðið á um framkvæmd samningsins verði hann fullgiltur. Hér eru fyrirmæli um að dómsmrh. hafi yfirumsjón með framkvæmd Haag-samningsins.

Samkvæmt 6. gr. samningsins á hvert aðildarríki að tilkynna hvaða stjórnvald innan ríkisins muni takast á hendur ábyrgð á framkvæmd samningsins, svonefnt miðstjórnarvald. Hér á landi hlýtur þetta að koma í hlut dómsmálaráðuneytisins þar sem þegar hefur fengist mikil reynsla af skiptum við erlend ríki vegna ættleiðinga. Í samningnum eru miðstjórnarvaldi fengin margvísleg verkefni og skuldbindingar á það lagðar og því er ætlað að vera þungamiðjan í allri framkvæmd samningsins.

Í 29. gr. er mælt fyrir um heimild manna búsettra hér til að ættleiða barn erlendis. Þarf dómsmrh. að samþykkja það fyrir fram með útgáfu forsamþykkis. Í frv. þessu er notað orðið forsamþykki yfir það skjal sem hingað til hefur verið kallað vilyrði.

30. gr. fjallar um umsókn um forsamþykki. Væntanlegir kjörforeldrar erlendra barna sem koma oft úr framandi umhverfi þurfa að búa sig undir uppeldishlutverk sitt að nokkru með öðrum hætti en þegar þeir taka sér íslenskt barn til ættleiðingar. Er æskilegt að þeir njóti sérstakrar fræðslu í þessu sambandi.

Í 2. mgr. 30. gr. frv. er lagt til að dómsmálaráðherra geti mælt fyrir um að umsækjendum um ættleiðingar erlendra barna sé skylt að sækja námskeið til undirbúnings fyrir ættleiðinguna. Er gert ráð fyrir að reglugerð verði þá sett um tilhögun þess.

Víða um lönd þykir tryggilegast að stjórnvöld og löggilt ættleiðingarfélög annist milligöngu um ættleiðingar milli landa. Á síðustu árum hefur Íslensk ættleiðing, sem viðurkennd er af dómsmrh., séð um slíka milligöngu og m.a. komið á sambandi milli væntanlegra ættleiðenda og stjórnvalda eða ættleiðingarfélaga í heimaríki barns. Segja má að Haag-samningurinn stefni að því að löggilt ættleiðingarfélag eða stjórnvöld annist þessa milligöngu.

Í 34. og 35. gr. frv. eru ákvæði um ættleiðingarfélög og milligöngu um ættleiðingar. Er dómsmrh. heimilað að löggilda slík félög og setja reglugerð um þau, sbr. 34. gr. Getur ráðherra mælt svo fyrir að þeim er ættleiða vilja barn erlendis frá sé skylt að leita aðstoðar við ættleiðinguna hjá löggiltu ættleiðingarfélagi. Jafnframt er svo fyrir mælt í 35. gr. að slík félög ein hafi milligöngu um ættleiðingar.

Ákvæði VII. kafla eru að verulegu leyti nýmæli að því er lögskráðar reglur varðar.

Í kaflanum er ákvæði um lögsögu dómsmálaráðuneytisins varðandi meðferð og úrlausn ættleiðingarmála, sbr. almenna ákvæðið í 36. gr. Í 37. gr. er svo ákvæði um það þegar óskað er ættleiðingar hér á landi af hálfu manns sem búsettur er erlendis.

Enn fremur er í þessum kafla ákvæði um viðurkenningu ættleiðinga barna frá öðrum löndum, sbr. 38. gr., og réttar\-áhrif þeirra. Það kveður á um breytta framkvæmd hér á landi, m.a. vegna áskilnaðar 1. mgr. 23. gr. Haag-samningsins. Ákvæðið miðast þó við að sami háttur verði á hafður varðandi allar ættleiðingar barna erlendis eins og nánar er reifað í athugasemdum við 38. gr.

Í 39. gr. er gerður sá fyrirvari að erlend ættleiðing sé ekki gild hér á landi ef hún fer gegn grunnreglum íslensks réttar. Hliðstætt ákvæði er m.a. í 24. gr. Haag-samningsins.

Í 40. gr. er lagt til að heimilað sé að víkja frá ákvæðum frv. ef nauðsyn krefur með hliðsjón af þjóðréttarsamningum sem Ísland er aðili að.

Loks er í VIII. kafla ákvæði um stjórnvaldsreglur, gildistöku og brottfallin lög ásamt ákvæði um lagaskil.

Herra forseti. Að lokum vil ég geta þess vegna umræðunnar undanfarið um að heimila eigi stjúpættleiðingu til fólks af sama kyni í staðfestri samvist að þetta málefni fellur ekki undir frv. það til ættleiðingarlaga sem ég mæli fyrir. Ef slík ættleiðing verður heimiluð ber að gera það með breytingu á 6. gr. laga um staðfesta samvist, nr. 87/1996, eins og gert var í Danmörku núna í sumar.

Ég vil geta þess að þetta atriði laganna um staðfesta samvist og önnur atriði þeirra laga sem er ætlað að rýmka rétt þeirra sem hyggjast stofna til staðfestrar samvistar eru nú til sérstakrar skoðunar í ráðuneytinu og ég á von á að þeirri athugun ljúki innan skamms. Ég vil leggja sérstaka áherslu á að við Íslendingar höfum verið í fararbroddi við að tryggja réttarstöðu barnafólks í staðfestri samvist með því að lögfesta reglu um sameiginlega forsjá með börnum foreldris í staðfestri samvist fyrst allra ríkja og að því leyti stöndum við enn fremstir að því er þetta varðar að Danmörku einni undanskilinni.

Herra forseti. Ég hef nú gert grein fyrir meginefni þessa mikilvæga lagafrv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og meðferðar hjá hv. allshn.