Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 14:30:53 (386)

1999-10-12 14:30:53# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[14:30]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér hafa orðið talsverðar umræður um rétt samkynhneigðra til þess að ættleiða og ég get tekið undir það sem þar hefur verið sagt. Ég vil hins vegar vara hv. þingmenn vinstri grænna við því að reyna að einoka málið eins og þau hafa talað hér og sér í lagi hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson, í þá veru að hér sé um að ræða eitthvert sérstakt baráttumál vinstri grænna. Það er þannig að þetta viðhorf nýtur útbreidds stuðnings, ekki bara meðal okkar í stjórnarandstöðunni heldur líka meðal stjórnarliðsins. Það er farsælast fyrir þetta mál að það verði ekki gert að einhverju stöku flokksmáli staks flokks, þó stór sé. Þetta vildi ég bara segja, herra forseti, vegna þess að þetta er dæmi um mál sem þarf að koma fram með samstöðu og nýta þá samstöðu sem er fyrir hendi. En mér finnst þessi málflutningur hjá hv. þm. ekki vera til þess fallinn að ná málinu fram. Það er ekki til þess fallið að taka málið upp með þeim hætti að þetta sé eitthvert sérstakt málefni vinstri grænna þegar allir þeir sem hafa talað í umræðunni, fyrir utan hæstv. ráðherra, hafa tekið undir þetta sjónarmið.

Að öðru leyti, herra forseti, vil ég fagna því að þetta mál kemur fram. Þetta frv. sem hér liggur fyrir er, fyrir utan þann ágalla sem hér hefur verið ræddur, að öllu leyti mjög gott. Þetta er afar fínt frv., og ég get að flestu leyti tekið undir allar greinar þess. Það er kannski skoðanamunur milli ákveðins hóps þeirra sem eru í hópi eigum við að segja kjörforeldra og hafa beinna hagsmuna að gæta og hæstv. ráðherra um örlítil atriði en engin sem máli skipta, og ég er þeirrar skoðunar að þetta sé mikið framfaraspor.

Alþingi hefur borið gæfu til þess á síðustu árum, m.a. vegna samstöðu allra í þinginu, samstöðu ólíkra flokka, að útrýma úr lögunum öllum þeim skafönkum sem mismunuðu áður með einhverjum hætti kjörforeldrum og kjörbörnum. Það gerði Alþingi árið 1996 með frv. sem var lagt fram af hálfu þingmanna Sjálfstfl. og Alþfl., sem var síðan samþykkt og naut mikils stuðnings í þinginu og þannig á auðvitað að vinna þessi mál.

Ég minnist þess að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir varð fyrst til þess að spyrjast fyrir um það árið 1994 hverju yndi fram um staðfestingu Haag-sáttmálans, sem er nú eitt af því sem leiðir af þessu ágæta frv. Þá var því svarað til að það væri á dagskrá að staðfesta þann samning og var jafnframt svarað að þegar væri hafin gerð þessa frv. Það var árið 1994 og þetta hefur verið mjög erfið fæðing. Ég hef á hverju einasta ári síðan spurst fyrir um það hvað liði gerð þessara laga og fengið svör sem ég hef ekki getað sætt mig við. En frv. er loksins komið fram og það skiptir verulega miklu máli.

Haag-sáttmálinn, sem verður væntanlega staðfestur í framhaldi af samþykkt þessara laga, gerir það að verkum að réttarstaða ættleiðinga á alþjóðlega vísu er allt önnur og miklu betri. Málin eru að þróast þannig í heimi þar sem stöðugt meiri eftirspurn er eftir börnum til ættleiðinga að menn hafa því miður farið þá leið að beita ýmsum ráðum sem falla ekki að lögum flestra landa. Við vitum að það er jafnvel verslun með börn, sér í lagi frá þeim löndum sem hafa verið hvað örlátust á börn sín eins og sum lönd Suðaustur-Asíu og sum lönd í Suður-Ameríku. Í þessum löndum er það nánast að verða skilyrði að búið sé af hálfu þjóðlands að staðfesta Haag-sáttmálann til þess að hægt sé að ættleiða börn þaðan. Ég þekki þetta sjálfur af eigin raun þar sem hef ættleitt tvö börn frá Kólumbíu og að því er ég best veit þá hefur ekkert barn fyrir utan þessi tvö börn mín komið þaðan. Það skortir þó ekki á að Íslendingar hafi sótt um leyfi og heimild til ættleiðinga þaðan.

Ég spurðist fyrir um þetta hjá þeim ágætu embættismönnum sem ég hitti nýlega á ferð minni um Kólumbíu og var svarað að það væri dálítið umhendis að ættleiða börn til landa sem hefðu ekki staðfest þennan sáttmála. Ég spurði hverju það sætti og þá var mér svarað því til að það væru vaxandi teikn um að verslun væri í gangi með börn milli landa og jafnframt að menn færu ýmsar aðrar óhefðbundnar leiðir sem væru þeim ekki að skapi og sem eru útilokaðar samkvæmt Haag-sáttmálanum. Þess vegna skiptir miklu máli fyrir okkur á Íslandi að sáttmálinn verði staðfestur. Það mun sennilega opna okkur leið til þess að ættleiða börn frá löndum eins og Kólumbíu og Kína líka.

Reynsla okkar sem höfum ættleitt sýnir okkur fram á að það er giska erfitt að standa í slíku og koma frá örlitlu landi. Ef ég má aðeins deila með hinu háa þingi reynslu minni frá Kólumbíu þá er hún þessi: Þegar maður kemur þangað niður eftir, einn og óstuddur frá Íslandi, í land þar sem enginn maður talar annað en spænsku er mjög erfitt að fóta sig í því skrifræðiskerfi sem þar ríkir. Þar hafa Norðurlöndin hins vegar hvert um sig skrifstofur með starfsmönnum, fjögurra til sex manna sem vinna á vegum sjálfstæðra ættleiðingarsamtaka í þessum löndum og stýra mönnum í gegnum þetta. Þetta skiptir auðvitað öllu máli.

Hins vegar þegar við komum frá Íslandi og höfum ekki þennan stuðning og það bætist líka við að það eru uppi ákveðnar efasemdir í garð þess lands sem við komum frá vegna þess að höfum ekki staðfest Haag-sáttmálann gerist þetta allt miklu erfiðara. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að við gerum það sem við getum til þess að flýta för samningsins í gegnum þingið. Það er skoðun mín, herra forseti.

Það breytir því ekki að ég er þeirrar skoðunar, eins og þeir ræðumenn sem hér hafa talað, að eðlilegt hefði verið við þessar aðstæður að stíga það skref sem felst í því að heimila stjúpættleiðingar.

Þegar ég velti fyrir mér hvort heimila eigi ættleiðingar til samkynhneigðra þá helgast niðurstaða mín af afstöðu minni til mannréttinda. Mannréttindahugtakið hefur verið að þróast á síðustu árum og eitt af því sem menn eru auðvitað orðnir sammála um er að það eru mannréttindi að sérhver einstaklingur fái að gera það sem hægt er til þess að eignast barn ef hann getur það ekki með þessum hefðbundnu leiðum sem Nói notaði til þess að geta Sem, Kam og Jafet. Eitt af því eru auðvitað ættleiðingar.

Samkynhneigðir eiga að njóta þeirra mannréttinda að fá að eignast börn. Þeir eiga að njóta nákvæmlega sama réttar og við hin. Hvaða rétt höfum við hin? Við sem höfum ekki eignast börn eftir þessum hefðbundnu leiðum höfum þann rétt að geta sótt um ættleiðingu. Samkvæmt íslenskum lögum og alþjóðlegum samningum er gerð úttekt á viðkomandi og niðurstaðan ræður því hvort viðkomandi fjölskylda fær að ættleiða barn. Það er síðan í valdi þeirra þjóða sem láta barnið af hendi, ef um er að ræða ættleiðingu erlendis frá, hvort þær sætta sig við niðurstöðuna. Ég er þeirrar skoðunar að að öllu leyti, ekki bara varðandi stjúpættleiðingar, eigi það að vera réttur samkynhneigðra að ganga í gegnum þetta nákvæmlega sama ferli og við hin, þ.e. að það verði gerð úttekt á þeim hvort þeir séu hæfir foreldrar, og það eigi að ráða því hvort þeir fái barnið. Það verður síðan á valdi þeirra stofnana og þjóða sem hafa yfir þessum börnum að ráða hvort þær sætta sig við þá niðurstöðu.

Ég lít hins vegar líka á stjúpættleiðingar frá sjónarhóli mannréttinda en það er þá sem það eru ekki fyrst og fremst mannréttindi hinna samkynhneigðu sem skipta öllu máli heldur mannréttindi barnsins. Ég held nefnilega og er að því leyti til sammála því sem mér virðist vera grunnstefið í viðhorfi hæstv. dómsmrh., þó ég komist að allt annarri niðurstöðu en hún, að þarna þurfum við að vega og meta hvernig barnið verður úti í þessu öllu saman. Ég er þeirrar skoðunar að það séu mannréttindi barna sem eru til innan sambands samkynhneigðra að fá að njóta þessa möguleika á stjúpættleiðingu. Ég held að það sé gott fyrir barnið. Þau rök sem hæstv. dómsmrh. flutti áðan ná að vísu svolítið en afskaplega skammt, held ég, þau eru léttvæg miðað við hin þyngri rök, þ.e. hæstv. dómsmrh. talaði um að það gæti auðvitað leitt til þess að við slíka ættleiðingu kynni t.d. hið ættleidda barn að missa rétt varðandi arftöku eftir kynforeldri sitt. (Gripið fram í.) Ég held hins vegar, herra forseti, að það sem skiptir miklu meira sé hið tilfinningalega gildi og tilfinningalega atlæti og sú örugga vissa barnsins að það hefur foreldri sem þau hafa ekki alltaf að öllu leyti. Það er það sem skiptir máli.

Alveg eins og að í sérhverjum einstaklingi blundar gríðarleg þörf til þess að eignast barn þá blundar í sérhverju barni gríðarleg þörf til þess að eignast foreldra. Það er óljóst í mörgum tilvikum eins og rakið var áðan, hver staða þeirra barna er í því tilliti. Þau eiga eitt foreldri, þau eiga kost á tveimur ástríkum foreldrum. Það á að leyfa þeim það, herra forseti.

Ég verð að rifja það upp, herra forseti, að skammt er síðan við nokkrir þingmenn vorum viðstödd málþing á vegum Félags samkynhneigðra stúdenta í Háskóla Íslands. Þar kom það fram hjá formanni allshn., hv. þm. Þorgerði Gunnarsdóttur, sem á ekki sæti á þingi núna vegna þess að hún er í fæðingarorlofi, að þetta mál væri í athugun hjá ráðuneytinu, eins og hæstv. ráðherra gat um hér áðan, en hv. þm., form. allshn., steig skrefi lengra og hún sagði að það væri beðið eftir niðurstöðu sænskrar nefndar. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er þessi sænska nefnd og hvernig stendur á því að hér erum við á Íslandi að velta fyrir okkur lagasetningu sem tengist mikilvægu réttindamáli og þá kemur það fram að það verður að bíða eftir því að nefnd á vegum sænskra sósíaldemókrata lýkur störfum árið 2001?

Ég gat ekki betur skilið mál hv. þm. á þessu málþingi en svo að hér væri um að ræða að verið væri að gera rannsóknir á hæfi samkynhneigðra sem foreldra. Ég verð, herra forseti, að taka undir með hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni, sem benti á það áðan að nú þegar liggja fyrir tugir slíkra rannsókna. Hægt er að leggja fram lista, sem ég er viss um að hæstv. dómsmrh. hefði a.m.k. gaman af að sjá ef ekki að kynna sér til hlítar, um 60 rannsóknir á hæfi samkynhneigðra sem foreldra. Niðurstaðan er í öllum aðalatriðum alls staðar hin sama. Samkynhneigðir eru ekki bara mjög hæfir sem foreldrar heldur ef eitthvað er þá eru þeir betri en hinir. Það hefur t.d. komið fram í þessum rannsóknum að samkynhneigðir karlar eru fljótari til þess að svara einhvers konar mótlæti af hálfu barna sinna með auknu ástríki, með því að ræða við þau, ræða vandamálin, og ef eitthvað er þá eru þeir betri feður.

Eitt af því sem kemur alltaf upp í þessari umræðu í gegnum árin er óttinn við að samkynhneigðir, og þá sérstaklega samkynhneigðir feður, misnoti börn sín. Það kom fram í þessari rannsókn að engin eru dæmi um slíkt. Með öðrum orðum er miklu minni hætta á því af hálfu slíkra karla en annarra að um misnotkun verði að ræða.

Börnin hafa líka verið könnuð. Það hefur verið skoðað og spurt hversu ,,vel heppnuð`` þau eru. Og, herra forseti, aftur er svarið hið sama, ef eitthvað er þá eru þau ,,betur heppnuð``. Það er því ekkert í þeim tiltölulega viðamiklu rannsóknum sem liggja fyrir um hæfi samkynhneigðra sem foreldra sem bendir til annars en að þeir séu afskaplega verðugir foreldrar.

Þess vegna, herra forseti, hlýt ég að spyrja hæstv. dómsmrh.: Er það í fyrsta lagi rétt eftir haft að verið sé að bíða eftir niðurstöðu sænskrar nefndar í þessum efnum? Í öðru lagi: Hefur hæstv. dómsmrh. ekki kynnt sér þær miklu rannsóknir sem liggja fyrir um þetta? Í þriðja lagi: Er ekki hæstv. dómsmrh. sammála mér um að það beri að greina á milli annars vegar frumættleiðinga og hins vegar stjúpættleiðinga? Og þá í fjórða lagi: Getur ekki hæstv. dómsmrh. orðið mér sammála um að e.t.v. sé tilefni til þess að flýta þessu tiltekna atriði, þ.e. að gera breytingu á lögum sem heimilar stjúpættleiðingar samkynhneigðra?

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé röng niðurstaða hjá hæstv. dómsmrh. að slík breyting eigi einungis heima í lögum um staðfesta samvist. Ég held að hún eigi heima þar en líka í því frv. sem hér liggur fyrir og þess vegna vil ég að það komi fram að a.m.k. við þingmenn Samfylkingarinnar, og e.t.v. fleiri þingmenn líka, munum leggja fram við 2. umr. brtt. við frv. og jafnframt á lögunum um staðfesta samvist sem gerir það kleift fyrir samkynhneigða að ættleiða stjúpbörn.

[14:45]

Herra forseti. Ég geri greinarmun á milli annars vegar stjúpættleiðingar og frumættleiðingar. Ég hef skýrt rökin fyrir því. Þarna er um mismunandi viðhorf hjá mér að ræða. Ég tel að tvímælalaust eigi að heimila stjúpættleiðingar strax vegna þess að þar er um að ræða mannréttindi barnanna en líka vegna þess að sú stefna hefur verið uppi hjá Samtökum samkynhneigðra að stíga þessi skref í þessari röð. Ég get út af fyrir sig alveg samþykkt það en ég vil bara að það komi alveg skýrt fram að ég er þeirrar skoðunar að varðandi samkynhneigða eigi að gilda nákvæmlega sömu reglur og lög um frumættleiðingar og okkur hin. Ég vil að það komi fram en ég get alveg fallist á þessa röð, herra forseti.

Ég vil síðan geta þess að þó að ég hafi, og fleiri þingmenn sem tilheyra þingflokki mínum, lagt fram viðhorf okkar sem lúta öll að því að nota eigi tækifærið til að heimila þá réttarbót sem felst í stjúpættleiðingunni, þá munum við ekki með nokkrum hætti reyna að tefja fyrir framgangi málsins.