Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 14:46:11 (387)

1999-10-12 14:46:11# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[14:46]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil láta það koma skýrt fram að ég hef ekkert tjáð mig um afstöðu mína til málsins, hvort þessar breytingar eigi að eiga sér stað þannig að þeir sem séu í staðfestri samvist geti fengið leyfi til ættleiðinga. Það mál er til skoðunar í dómsmrn. eins og ég skýrði frá hér áðan.

Spurt var sérstaklega um formann allshn. og orð hennar á fundi nú nýverið. Ég var ekki á þessum fundi og ég tel að hv. þm., formaður allshn., sé fullfær um að svara fyrir sig en vísað var í sérstaka sænska rannsókn. Eitt af því sem hefur komið fram við skoðun okkar á málinu er að Svíar hafa nú sett af stað mjög viðamikla rannsókn og sú rannsókn tekur bæði til stjúpættleiðingar og frumættleiðingar og þar af leiðandi er málið kannski orðið miklu stærra í sniðum. Ég er alveg sammála hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni um að greina þarf á milli stjúpættleiðingar annars vegar og frumættleiðingar hins vegar.

Ég vildi bara láta þetta koma fram. Að öðru leyti vil ég taka undir með hv. þm. að tilfinningar skipta meira máli en erfðaréttur. Ég hef fullan skilning á því máli og hagsmunum barna almennt þar sem ég var formaður barnaverndarnefndar Reykjavíkur um árabil.