Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:16:01 (395)

1999-10-12 15:16:01# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:16]

Sighvatur Björgvinsson:

Virðulegi forseti. Ákvæði um dreifða eignaraðild voru sett í lög til að tryggja að örfáir aðilar næðu ekki eignarhaldi á dýrmætustu auðlind í sameign Íslendinga. Hæstv. ráðherra svaraði ekki þeirri einföldu spurningu hvort hann teldi hættu á að svo færi, hvort hann teldi hættu á að þessi ákvæði laganna stæðust ekki þegar á reyndi vegna þess að til að komast fram hjá þeim velji einn og sami fjársterki aðilinn einfaldlega þá leið að kaupa hlutabréf í mörgum sjávarútvegsfyrirtækjum þó hvert og eitt þeirra eigi ekki meira af aflaheimildum en lögin heimila.

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því hvernig eftirliti með þessum lögum er háttað. Fiskistofa á að sjá um eftirlit með lögunum. Hún á að sjá um að þeir aðilar sem eiga í viðskiptum á markaðnum tilkynni henni sjálfir hvort hætta sé á að þeir verði brotlegir eða ekki. Fiskistofa hefur samkvæmt lögunum ekki heimild til þess að framkvæma sjálfstæða rannsókn. Ég hef spurst fyrir um hvaða aðferðum Fiskistofa hafi beitt til að fá þessar upplýsingar. Ég hef spurt hvort hún hafi haft samband við Samkeppnisstofnun til þess að fá þaðan upplýsingar um atriði er tengjast þessu máli. Svarið er nei. Ég hef spurst fyrir um það hvort hún hafi haft samband við Fjármálaeftirlitið til að fá upplýsingar og ganga úr skugga um hvort þessi hætta er raunveruleg eða ekki. Svarið er nei. Ég hef spurst fyrir um hvort reglulegt samstarf sé við Verðbréfaþing til að fá upplýsingar um hvernig eignarheimildir að fyrirtækjum skipta um hendur á þeim vettvangi. Svarið er nei.

Þess vegna spyr ég hæstv. sjútvrh.: Telur hann að svona eftirlit með ákvæðum laganna sé fullnægjandi? Er hann sáttur við að helstu eftirlitsstofnanir og umsýslustofnanir í landinu á þessu sviði séu ekki einu sinni spurðar álits eða leitað til þeirra um upplýsingar af þeim aðila sem á að sjá um eftirlitið með þessum lögum? Eða eru þessi ákvæði laganna ekki pappírsins virði sem þau standa á?