Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:25:47 (399)

1999-10-12 15:25:47# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), LB
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:25]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Það var gaman að hlýða hér á hæstv. sjútvrh. áðan sökum þess að þarna var sem fyrrv. sjútvrh. væri afturgenginn. Ég held að ég hafi kunnað allflesta þá frasa sem hann notaði í máli sínu og þeir hafa örugglega heyrst hér á síðasta kjörtímabili.

En, virðulegi forseti, þau lög sem hæstv. sjútvrh. vitnaði óspart til er í raun ætlað að koma í veg fyrir að eitt tiltekið fyrirtæki fái of mikla hlutdeild í aflaheimildum. Hér er verið að ræða um ráðandi hlutafjáreign í viðkomandi fyrirtækjum, þ.e. þau markmið sem Alþingi setti sér á sínum tíma, að reyna að tryggja dreifða eignaraðild, hefur ekki tekist sökum þess að menn hafa farið aðra leið. Þeir hafa keypt upp hlutafé í fyrirtækjum í stað þess að kaupa sér aflaheimildir. Þessa grundvallarspurningu er verið að leggja fyrir hæstv. forsrh. í umræðunni. Ætla stjórnvöld að bregðast við þessari þróun með einhverjum hætti? Um það snýst málið en ekki einhvern gamlan heimastíl úr ráðuneytinu sem fjallar um að hagkvæmni stærðarinnar fái að njóta sín o.s.frv. Málið snýst ekki um það, virðulegi forseti.

Ég tel mikilvægt að hæstv. sjútvrh. komi hér upp aftur og reyni að gera bragarbót á máli sínu og upplýsi hvort til standi að bregðast við þessari tilteknu þróun, þ.e. þeirri þróun að menn kaupi sig inn í fyrirtæki, kaupi hlutafé í stað þess að fara þá leið sem löggjafinn reyndi að sporna við, að kaupa sér auknar aflaheimildir. Þetta mál snýst um það, virðulegi forseti.

Ég held að hæstv. sjútvrh. verði að svara því í stað þess að koma með heimastíl eins og þann sem hann flutti hér áðan. Ég held að það þjóni ekki neinum tilgangi að standa í þessum utandagskrárumræðum ef við eigum sífellt að lifa að menn flytji hér einhverja gamla heimastíla úr ráðuneytinu.