Þróun eignarhalds í sjávarútvegi

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:30:03 (401)

1999-10-12 15:30:03# 125. lþ. 7.94 fundur 59#B þróun eignarhalds í sjávarútvegi# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:30]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hér er rætt um afleiðingar óheillastefnu. Hæstv. sjútvrh. líst samt vel á þróunina. Hann er ánægæður með það hvernig gengur. Stjórnvöld hafa fært atvinnurekendum í sjávarútvegi ígildi eignarhalds á fiskinum í sjónum og í því er vandinn fólginn sem rætt er um. Þeir mega nefnilega selja lífsmöguleika byggðanna út og suður eins og þeir vilja. Þar með hafa allir aðrir íbúar þessara svæða verið rændir lífsréttinum sem hefur tilheyrt þeim sjávarbyggðum.

Veiðirétturinn rennur nú á færri og færri hendur og sú stund er í raun upp runnin að fáeinir menn í stjórnum hlutafélaga taka ákvarðanir um að úrelda byggðina. Þar ræður fjárhagsstaða og hagur fyrirtækisins eða bankans sem fjármagnar viðkomandi fyrirtæki öllu. Verðmætin sem liggja í byggðarlaginu sjálfu eru einskis metin á fundum hjá burðarásum atvinnulífsins þegar verið er að taka ákvarðanir um framhaldið. Eignir íbúanna, íbúðarhús, skólar, þjónustufyrirtæki og atvinnufyrirtæki geta þar engu skipt. Þjóðhagsleg hagkvæmni þess að úrelda byggðina er ekki einu sinni umhugsunarefni. Afleiðingin af þessu er óvissa og vaxandi vantrú á framtíð byggðarlaganna. Þeir sem verja þetta óréttláta fyrirkomulag halda því gjarnan fram að kosningaúrslitin núna hafi gefið til kynna að menn væru ekkert óánægðir með þetta.

Hverju lofuðu þeir sömu aðilar fyrir kosningar? Þeir lofuðu þjóðarsátt um lausn í málinu. En í rauninni er verið að greiða atkvæði alla daga um þetta mál. Menn gera það með því að stafla búslóðinni sinni á flutningafyrirtækin hjá Burðarási og láta hann flytja búslóðina til Reykjavíkur. Heill gámur af búslóð hvern einasta dag af landsbyggðinni til Reykjavíkur segir sína sögu um hvaða trú fólk hefur á byggðarlögunum og því fyrirbrigði sem menn kalla hagræðingu í kvótakerfinu. Hvern einasta dag, hæstv. forseti, fer heil fjölskylda af landsbyggðinni til Reykjavíkur.