Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 15:58:53 (410)

1999-10-12 15:58:53# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[15:58]

Hjálmar Jónsson:

Herra forseti. Ég kem hér eiginlega að áeggjan hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar. Hann biður um álit og helst álit allrar kirkjunnar. Ég er ekki þjónn hennar nú um stundir en í öllu falli vill hv. þm. að ég tjái mig fyrir hönd þingflokks sjálfstæðismanna um þessi siðferðilegu álitamál.

Ég svara því til eins og hv. þm. Sverrir Hermannsson að málið er á leiðinni til allshn. þar sem við eigum sæti og komum til með að fjalla yfirvegað um það og málefnalega en fyrst og fremst til að koma frv. til laga um ættleiðingu til 2. umr. og síðan að það verði að lögum.

Búið er að rekja það af hæstv. dóms- og kirkjumrh. hve mikilvægt þetta mál er. Ég drap einnig aðeins á það hversu margir bíða eftir að fullgilding Haag-sáttmálans að þessu leyti nái fram og því vil ég árétta það að við þurfum að klára þessi lög um ættleiðingu.

[16:00]

Ég er hins vegar ekki undir það búinn að segja endanlegt álit mitt á því hvort heimila eigi fólki af sama kyni í staðfestri samvist að ættleiða börn. Ég vil gefa mér meiri tíma til þess. Það er verið að vinna í því t.d. hjá þjóðkirkjunni og reyndar bundust prestar um það nokkrum samtökum að vera ekki að tjá sig um það meðan málið væri í vinnslu. Ég vona að það styttist nú í því að þjóðkirkjan gefi álit sitt og ég tel víst að það verði í anda þess boðskapar sem kirkjan ber fram.

Fyrst ég er hér kominn að áeggjan hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, þá vil ég nefna í leiðinni að ég hef veitt því athygli undanfarið að einn prestur þjóðkirkjunnar --- hann er hættur störfum nú en var prófastur í Reykjavík --- skrifaði greinar undir sínu nafni og var birt mynd af honum með í Morgunblaðinu. Hann tjáði sína skoðun fyrst og fremst. Aðrir kirkjunnar menn hafa svo tjáð aftur sína skoðun sem er andstæð skoðun þessa manns sem er séra Ragnar Fjalar Lárusson. Mér hefur aðeins runnið það til rifja hversu menn hafa hamast á séra Ragnari Fjalari Lárussyni vegna skoðunar hans sem hann kynnir í sínu nafni og mér líka ekki þessar óvægnu --- ég vil næstum segja árásir, en það hvernig menn hafa komið fram gagnvart honum. Hann hefur rétt á sinni skoðun eins og aðrir hafa rétt á sinni skoðun.

Ég er ekki sammála séra Ragnari Fjalari Lárussyni. Ég tek það fram. En mér finnst að hann eigi rétt á því að tjá skoðun sína ef hann vill. Við þurfum að hafa það í huga á báða bóga að sjónarmið mega koma fram og eiga að koma fram en menn eiga ekki að dæma eða fordæma sitt á hvað heldur ræða þetta málefnalega eins og við hv. þm. Sverrir Hermannsson og margir fleiri ætlum að gera í hv. allshn., hugsanlega í tengslum við frv. til laga um ættleiðingu. Ég á von á að þetta mál um heimild fólks af sama kyni til þess að ættleiða börn beri á góma, og þar munum við fjalla um það málefnalega með rökum með og á móti.