Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 16:04:18 (412)

1999-10-12 16:04:18# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, HjálmJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[16:04]

Hjálmar Jónsson (andsvar):

Herra forseti. Hér varð varð eftir rauður penni. Að ekki þurfi að bíða eftir þjóðkirkjunni með neitt. Ég verð að segja að mér finnst ástæða til að þjóðkirkjan fái að tjá sig um það hvort hún er reiðubúin með það sem hana sjálfa varðar. Hún þarf að undirbúa sín mál þannig að hún geti verið reiðubúin og tekið með eðlilegum hætti á móti breytingum og breyttum tíðaranda þannig að allir séu samtaka. En kirkjan er ekki neydd til þess, hvorki af þrýstihópum né öðrum. Kirkjan er hins vegar allra, þjóðkirkjan er allra og kristin kirkja yfirleitt. Þar er enginn undan skilinn. Ég árétta þetta sérstaklega. Enginn er undan skilinn.

Ég get hins vegar sagt það að mér þykir biðin líka orðin nógu löng og ég vænti þess að þeir sem hafa fengið þetta mál til röklegrar meðferðar, álitsgerðar og álitsgjafar innan þjóðkirkjunnar fari að skila sínu. Kirkjuþing hóf störf í gær eða fyrradag og ég get vel ímyndað mér að það muni tjá sig um þessi mál. Ef ekki, þá er líklegt að það fari að koma að því mjög fljótlega.