Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 16:05:55 (413)

1999-10-12 16:05:55# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, VS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[16:05]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til þess að segja örfá orð í lok þessarar umræðu sem starfandi formaður allshn. Mér finnst að umræðan hafi verið málefnaleg og hlakka til þeirrar vinnu sem fram undan er í nefndinni, að fjalla um frv. sem er mjög vel unnið að mínu mati og tekur á ættleiðingarmálum eins og best verður á kosið. Það er eðlilegt að inn í þessa umræðu spinnist réttindamál samkynhneigðra þrátt fyrir að önnur lög eigi betur við um breytingar á því málefni og þeim ákvæðum sem þar um ræðir, en það tengist engu að síður þessu frv. líka, a.m.k. umræðan.

Ég er í sjálfu sér stolt af því hvernig við Íslendingar og Alþingi Íslendinga höfum verið í fararbroddi í sambandi við réttindamál samkynhneigðra. Þar vitna ég til laga um staðfesta samvist sem hér voru samþykkt fyrir nokkrum árum, árið 1996. Það segir okkur að við erum til alls vís hvað varðar framhaldið. Í mínum huga er spurningin ekki um það hvort réttindastaða samkynhneigðra verði bætt heldur miklu frekar hvenær það gerist. Það er mál sem er verið að undirbúa og vinna að í dómsmrn. eins og komið hefur fram hjá hæstv. ráðherra þannig að ég tel að þessi mál séu öll í dágóðum farvegi.

Mér þótti mikilvægt að heyra það hjá hv. þm. sem gerðu þetta sérstaklega að umræðuefni að þeir sögðu jafnframt að þeir teldu að það mætti ekki tefjast að sett yrðu ný lög um ættleiðingar þrátt fyrir að áherslur gætu verið eitthvað mismunandi um þetta efni.