Ættleiðingar

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 16:08:22 (414)

1999-10-12 16:08:22# 125. lþ. 7.9 fundur 68. mál: #A ættleiðingar# (heildarlög) frv. 130/1999, dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[16:08]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil í lok þessarar umræðu fá að þakka hv. þingmönnum fyrir málefnalega umfjöllun um málið. Það er einna helst að ég sakni þess að fá ekki meiri umræðu um einstök atriði frv. vegna þess að að mínu mati er hér um að ræða mjög merkilegt mál. Mjög mörg nýmæli eru lögð til í þessu frv. og það er afskaplega mikilvægt að mínu mati að þetta mál nái fram að ganga og það sem fyrst.

Ég held þó að við þurfum ekki að ræða þetta neitt frekar. Að sjálfsögðu fær hv. allshn. frv. til meðferðar og mun fara mjög vel yfir það og allar hliðar þess. Ég vil þó taka það fram og ítreka, eins og ég hef sagt áður og það ber að leggja áherslu á það, að ef lagt verður til þegar þar að kemur að heimila fólki í staðfestri samvist að ættleiða börn, þá ber að gera það með breytingu á lögum um staðfesta samvist. Í 6. gr. laganna, sem eru nr. 87/1996, segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Ákvæði ættleiðingarlaga um hjón og laga um tæknifrjóvgun gilda ekki um staðfesta samvist.

Ákvæði í alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að gilda ekki um staðfesta samvist nema aðrir samningsaðilar fallist á það.``

Þetta kemur skýrt fram í lagatexta þannig að frá lagatækninlegu sjónarmiði eiga ákvæði um þetta efni alls ekki heima í ættleiðingarlögum og þess vegna þarf ákvörðun í sjálfu sér um þetta atriði ekki að liggja fyrir áður en ný heildarlöggjöf um ættleiðingar verður samþykkt.

Ég vildi líka fá að koma aðeins að því sem nokkrir hv. þm. gerðu sérstaklega að umtalsefni í byrjun þessarar umræðu, þar sem m.a. var talað um að þetta væri svo knýjandi mál, þ.e. að fólk í staðfestri samvist fengi leyfi til að ættleiða börn. Þá er rétt að velta því fyrir sér lögfræðilega séð hvað breytist í réttarstöðu barnsins. Forsjáin er sameiginleg í staðfestri samvist. Ef kynforeldri andast þá er forsjá barnsins áfram hjá eftirlifandi makanum í staðfestri samvist. Það er líka hægt að gera erfðaskrá til þess að tryggja erfðarétt barnsins. Þá skulum við líta á hina hliðina. Hverju tapar barnið? Það tapar m.a. möguleikum á umgengni við forsjárlaust foreldri ef ágreiningur rís, svo og önnur skyldmenni þess foreldris.

Herra forseti. Ég vildi bara að það kæmi skýrt fram að ég er að ræða hér um hugtakið ættleiðingu, hvað felst í því lögfræðilega og hvernig það snertir réttarstöðu barnsins. En ég er ekkert að láta í ljós mína skoðun að öðru leyti á því hvort fólk í staðfestri samvist geti ekki verið hæfir uppalendur og foreldrar. Ég tel að svo geti svo sannarlega verið.

Þá vil ég enn og aftur vísa til þess sem sumir hv. þm. Samfylkingarinnar hafa gert sér svo tíðrætt um, þ.e. sænska rannsókn frá krötunum í Svíþjóð. Ég hef áður svarað því til að engin ástæða er til að halda því fram að slík rannsókn sé einhver áhrifavaldur í þessu máli. Ég hef þó bent á að það er mjög mikilvægt að Norðurlöndin starfi mjög náið saman á löggjafarsviðinu, ekki síst hvað snertir sifjarétt sem í felst m.a. fjölskylduréttur og barnaréttur, því það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem eigum frjálsa för á milli Norðurlanda að hafa sem líkastan rétt, bæði rétt og skyldur, í hverju landi fyrir sig.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson spurði líka sérstaklega út í heimild einhleypra til þess að fá að ættleiða samkvæmt 4. mgr. 2. gr. frv. Það er rétt sem hann benti reyndar á að þetta er ekki nýtt. Þetta hefur verið leyft áður í algerum undantekningartilvikum. En í þessu ákvæði er lögð áhersla á það að ef heimila á einhleypum manni að ættleiða barn, þá þarf að sýna fram á að sá hinn sami sé hæfileikum búinn til að ala upp barn umfram það sem venjulegt má teljast. Þetta er í samræmi við framkvæmd ættleiðingarmála hér á landi eins og hún hefur verið og í öðrum norrænum ríkjum. Það er sem sé verið að gera sérstakar auknar kröfur og byggist það á því að barni hefur almennt verið talið fyrir bestu að alast upp hjá tveimur foreldrum, þ.e. móður og föður.

Varðandi 4. gr. frv. er þar fjallað almennt um skilyrði fyrir ættleiðingu. Þess vegna má ekki blanda þessu tvennu saman því að í 4. mgr. 2. gr. er um sérstakt ákvæði að ræða.

Virðulegi forseti. Ég vil að lokum ítreka mikilvægi þessa máls. Ég veit að mjög margir bíða eftir því að frv. verði að lögum sem fyrst frá hinu háa Alþingi. Haldin var ráðstefna fyrir skömmu sem Íslensk ættleiðing stóð fyrir. Þangað kom m.a. framkvæmdastjóri Haag-samningsins og ég átti þess kost að hitta hann. Hann lagði mjög ríka áherslu á að við gætum gerst aðilar að Haag-samningum því það mundi opna okkur svo margar dyr til þess að geta ættleitt börn frá ýmsum öðrum löndum vegna þess að það eru lönd sem hafa borið þetta mjög sterklega fyrir sig, t.d. Kína. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson lýsti reynslu sinni í Kólumbíu. Það er auðvitað mjög athyglisvert sem kom fram í hans máli um að þar væru Norðurlöndin með sérstakar skrifstofur, þ.e. að ættleiðingarfélög á Norðurlöndunum væru með skrifstofur þar í landi til þess að aðstoða fólk við framkvæmdina. Ég vil benda á það sem ég sagði í framsögu minni að gert er ráð fyrir því að hægt verði að taka upp skráningu sérstakra félaga sem gætu vafalaust orðið mjög mikilvæg tæki til þess að hjálpa fólki til þess að ættleiða börn erlendis frá.

Ég held að ég láti þetta duga, herra forseti, en ítreka þakkir mínar til hv. þm. fyrir málefnalega umræðu og ég veit að hv. allshn. mun skoða málið vel og vandlega.