Réttindi sjúklinga

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 17:02:23 (428)

1999-10-12 17:02:23# 125. lþ. 7.12 fundur 9. mál: #A réttindi sjúklinga# (vísindasiðanefnd) frv., Flm. ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[17:02]

Flm. (Þuríður Backman) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér upp vegna orða hæstv. heilbrrh. um hvernig skipað er í nefndir. Hvaða áhrif hefur það á útkomu og starf nefndanna? Auðvitað skiptir það máli eins og hv. 13. þm. Reykv., Ögmundur Jónasson, sagði áðan og nefndi þá til Ferðamálaráð og breytingu á formennsku í því ráði. Það hefur sitt að segja.

Vísindasiðanefndin sú fyrri var skipuð á þann hátt, að mínu áliti og margra annarra, að segja má að hlutlausir aðilar hafi komi að vinnunni. Með tilnefningu frá Háskóla Íslands, mismunandi deildum og landlæknisembættinu auk fulltrúa heilbrigðisstétta. Þetta er sú skipan sem við getum helst talað um sem hlutlausa nefnd í þessu sambandi.

Það þurfti að útvíkka hlutverk vísindasiðanefndarinnar. Hvernig er hægt að útvíkka hlutverk hennar með því að fækka, hafa þar fulltrúa ráðuneytanna og hvar er fulltrúi eða sérfræðingur sem hefur yfirsýn yfir lífvísindi? Eftir þeirri upptalningu á fulltrúum í nefndinni gat ég ekki séð að þar væri sérfræðingur í erfðavísindum.

Hæstv. ráðherra las úr þýðingu á Helsinki-sáttmálanum að nefndin skuli vera óháð hagsmunanefnd. Það er rétt en í alþjóðlegum siðareglum er einnig getið um að hún skuli vera óháð stjórnvöldum.