Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 17:35:05 (439)

1999-10-12 17:35:05# 125. lþ. 7.13 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[17:35]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um sérstakar aðgerðir í byggðamálum. Þetta er 10. mál þingsins á þskj. 10 og flm. ásamt með mér eru allir hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs. Ég sakna þess nú reyndar, herra forseti, að hæstv. forsrh. á þess ekki kost að vera viðstaddur við upphaf umræðunnar en vona þó að hann geti komið inn í umræðuna á síðari stigum. Eins og kunnugt er heyra byggðamál og málefni Byggðastofnunar undir hæstv. forsrh. Ég tel engu að síður mikilvægt að þessi umræða geti hafist og byggðamálin komist á dagskrá. Ég vil því nýta mér þetta tækifæri til að mæla fyrir tillögunni og vona að hér geti skapast umræður um þetta brýna mál.

Herra forseti. Fyrst um rökstuðning fyrir því að nauðsyn sé á að grípa til sérstakra byggðaaðgerða umfram og til viðbótar því sem í gangi er í þjóðfélaginu í þessum efnum. Ég held að flestum sem til þekkja sé það ljóst og um það sé ekki ágreiningur að ófremdarástand ríkir í þessum efnum í landinu. Byggðaröskun og fólksflótti af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins hefur aukist ár frá ári nú um alllangt skeið eða frá og með árinu 1993. Undanfarin þrjú ár hafa hartnær 2 þús. manns flutt af landsbyggðinni inn á höfuðborgarsvæðið á ári, umfram þá sem flutt hafa í gagnstæða átt. Í fylgiskjölum með tillögunni er þetta nokkuð rakið. Þar má m.a. sjá hvernig ástandið hefur farið versnandi jafnt og þétt frá og með árinu 1993 en þá urðu þessir búferlaflutningar minnstir á síðari árum, fóru niður í um 500--550 manns, og höfðu þá reyndar farið lækkandi nokkurn veginn samfellt frá árinu 1988. Síðan snerist þetta við og það mjög harkalega. Fólksflutningarnir jukust um mörg hundruð manns á milli ára á árunum 1994, 1995, 1996, 1997. Núna á árunum 1996, 1997 og 1998 og væntanlega einnig á því ári sem nú er að líða eru þetta 1.700--2.000 manns á hverju ári og ekkert sem bendir til að breyting verði á þeirri þróun.

Ef litið er á ástandið eftir einstökum svæðum þá er ljóst að þar er einnig um gífurlegar blóðfórnir að ræða í tilviki einstakra byggðarlaga. Þannig hafa a.m.k. tvö svæði í landinu á sl. 10 árum, frá árinu 1988--1998, misst yfir 20% íbúa sinna burtu. Þetta á við um sunnanverða Vestfirði eða Barðastrandarsýslu og þetta á við um Dali. Í suðurfjörðunum á Austfjörðum er þessi tala 20%, í Strandasýslu mínus 19%, í Vestur-Húnavatnssýslu 14%, í Vestur-Skaftafellssýslu 13%, á miðsvæði Austfjarða 11% og svo mætti áfram telja.

Þessar tölulegu staðreyndir, herra forseti, tala sínu máli. Og þó ljóst sé að margir samverkandi þættir séu þarna að baki þá getur niðurstaðan af því að skoða tölurnar ekki orðið nema ein og aðeins ein. Hún er sú að í þessum efnum ríkir ófremdarástand. Tilburðir stjórnvalda til að sporna við þessari þróun hafa reynst afar haldlitlir, m.a. vegna þess að aðgerðir hafa ekki fylgt orðum. Það vantar ekki að menn hafi viljað gera ýmislegt gott í þessum efnum í orði kveðnu. Má þar t.d. vitna til byggðaáætlunar stjórnvalda sem í gildi var á árunum 1994--1997 þegar þessi óheillaþróun fór einmitt hríðversnandi ár frá ári. Þá átti m.a. að gera sérstakt átak í að fjölga störfum í opinberri þjónustu á landsbyggðinni. Þegar uppgjör fór fram á þessu tímabili kom í ljós að hið gagnstæða hafði gerst. Öll ný störf í opinberri þjónustu höfðu orðið til á höfuðborgarsvæðinu.

Það þarf ekki að taka fram, herra forseti, að þetta ástand og allt það óréttlæti sem því fylgir gagnvart þolendunum er í hrópandi ósamræmi við grundvallarmarkmið um jöfnuð og jafnrétti þegna samfélagsins. Eitt meginmarkmið stjórnvalda á að mati okkar flutningsmanna að vera að tryggja sem mestan jöfnuð í launum, lífskjörum og öllum aðstæðum, að meðtöldu aðgengi að undirstöðuþjónustuþáttum. Skorturinn á því að þessi markmið séu uppfyllt veldur því m.a. að ástandið í byggðamálunum er eins og raun ber vitni. Aðstaða fólks víða á landsbyggðinni og sérstaklega í afskekktum byggðarlögum er einfaldlega miklu lakari hvað varðar þessa undirstöðuþætti. Það sýna vandaðar kannanir. Ég leyfi mér í því sambandi að benda á úttekt Stefáns Ólafssonar lektors sem unnin var fyrir Byggðastofnun fyrir um einu og hálfu ári síðan.

Það er vaxandi meðvitund um það, herra forseti, þrátt fyrir allt, hversu þjóðhagslega óhagkvæm þessi þróun er, hversu gífurlega mikill og dýr herkostnaðurinn er fyrir samfélagið allt. Lauslegir útreikningar sem gerðir voru á höfuðborgarsvæðinu fyrir skemmstu bentu til að kostnaðurinn fyrir sveitarfélög hér við að taka á móti hverjum nýjum íbúa sem flyst inn á svæðið í þessum miklu þjóðflutningum væri á bilinu 3--5 millj. kr. fyrir hvern einstakling. Þetta er kostnaður þess sveitarfélags sem tekur við flutningunum. Þá er ótalinn kostnaður þeirra sveitarfélaga sem missa frá sér fólkið og allir þeir erfiðleikar sem þar skapast í tekjufalli og vannýttum fjárfestingum. Þá er enn ótalinn kostnaður einstaklinganna sjálfra sem þurfa að koma sér upp húsnæði, koma sér fyrir á nýjum stað og yfirgefa oftar en ekki verðlausar eða verðlitlar eignir í þeim byggðarlögum sem þeir eru að flýja.

Þegar allt er samandregið er ljóst, herra forseti, að herkostnaðurinn af þessari röskun er gífurlegur fyrir þjóðarbúið. Hann er nær því að mælast í milljarðatugum en milljörðum að mínu mati. Það er enginn vafi á því að þetta er eitt af því sem heldur niðri lífskjörum í landinu og veldur því að við meiri erfiðleika er að glíma en ella þyrfti við að bæta afkomu einstaklinga, sveitarfélaga og jafnvel ríkissjóðs sjálfs.

Að óbreyttu, herra forseti, getur ekkert annað gerst en að á næstu 15--25 árum verði byggðahrun í fjölmörgum byggðarlögum ef ekki heilum landshlutum. Ætli menn að bera á móti þeirri staðreynd þá bendi ég þeim á að beita einföldum reglum um framreikning þeirra talna sem nú liggja fyrir og sýna þróunina eða öllu heldur öfugþróunina, afturförina sl. 10--15 ár. Jafnlangt tímabil eða 10 ár í viðbót, 15--25 ár, fara það langt með að tæma fjölmörg byggðarlög í landinu að óbreyttu að ekkert annað getur gerst en byggðin hrynji saman. Ég held að menn eigi að horfast í augu við þennan veruleika eins og hann er. Þó að það sé leitt að þurfa að segja þetta og maður gerir það svo sannarlega ekki að gamni sínu að draga myndina upp, þá er hún svona. Staðreyndirnir eru ósköp einfaldlega blákalt og borðleggjandi svona og það verður að horfast í augu við þær eins og þær eru. Kosti það það sem kosta vill.

Það þarf ekki að ræða, herra forseti, hversu gífurlegt áfall það yrði fyrir íslenskt þjóðarbú ef svo fer að ekki takist að snúa þessari óheillaþróun við og varna því að nákvæmlega þetta gerist sem ég lýsti. Fari svo þá stöndum við frammi fyrir því að afskrifa gífurlegar fjárfestingar, gífurlegan þjóðarauð sem liggur bundinn í uppbyggingu og fjárfestingum, bæði samfélagslegum og einkafjárfestingum, á þessum svæðum. Það sem er enn verra er að þá mundi verða tjón sem mjög erfitt gæti reynst að bæta fyrir. Við afskrifum þá framtíðarmöguleika sem liggja fólgnir í búsetunni í viðkomandi byggðarlögum með öllu því sem með þeim fer svo ekki sé minnst á þá félagslegu, sögulegu og menningarlegu þætti sem þessu eru tengdir og öll þau verðmæti af þeim toga sem fara forgörðum með hverri einustu byggð sem deyr.

Allt ber að sama brunni, herra forseti, að mati okkar flutningsmanna. Það er leitun að betri fjárfestingu í landinu en þeirri að gera allt sem hægt er til að snúa þessari þróun við. Ég fullyrði að arðsemi árangursríkra byggðaaðgerða, þó varið sé til þeirra miklum fjármunum, getur verið nánast ómæld fyrir þjóðarbúið eins og þessir hlutir blasa við okkur nú.

[17:45]

Ég tel rétt að undirstrika að í raun er það ekki hugsun okkar flutningsmanna að hefja fólksflutninga í stórum stíl í öfuga átt heldur að stöðva þá röskun sem í gangi er, koma á nýjan leik á jafnvægi í búsetuþróun í landinu þannig að byggðarlögin geti að breyttu breytanda notið almennt eigin viðkomu og þar sé fjölgun nokkurn veginn í samræmi við það sem landsmönnum er að fjölga á hverjum tíma. Við leggjum því til, herra forseti, og hikum ekki við að leggja til, að varið verði allverulegum fjármunum árlega næstu fjögur árin í sérstakar byggðaaðgerðir til viðbótar því sem í gangi er, til viðbótar því sem felst í hinni samþykktu byggða\-áætlun stjórnvalda, til viðbótar þeim tillögum sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna komu sér saman um á Alþingi á síðasta vetri og tengdir voru svonefndri kjördæmabreytingu og til viðbótar öðru því sem uppi kann að verða.

Að okkar mati snýst þetta um að grípa til svo umfangsmikilla aðgerða að þær í sjálfu sér breyti í grundvallaratriðum aðstæðum fólks á landsbyggðinni til hins betra. Það er það sem þarf til. Um leið ættu þær að vera því fólki sönnun þess að stjórnvöldum sé alvara með að snúa þessu við og það er ekki síður það sem þarf að gera eigi árangur að nást. Það er að breyta andrúmsloftinu og það er að blása mönnum á nýjan leik í brjóst kjark og trú á framtíðina í þessum byggðarlögum, að menn hafi það á bak við sig að stjórnvöldum sé alvara í að stöðva byggðaröskunina. Við leggjum því til, herra forseti, að gripið verði til umfangsmikilla aðgerða en þær bera þess nokkuð merki að þær eru hugsaðar sem viðbótaraðgerðir við það sem fyrir er. Þess vegna eru ekki lagðar til t.d. frekari aðgerðir hvað varðar jöfnun húshitunarkostnaðar eða námskostnaðar á framhaldsskólastigi vegna þess að við viðurkennum að það sem við komum okkur saman um að því leyti á liðnum vetri er vissulega verulegt skref í rétta átt.

1. Að lagðar verði 1.000 millj. kr. árlega í fjögur ár til eflingar og nýsköpunar atvinnulífs á landsbyggðinni í formi framlaga til atvinnuþróunarfélaga.

2. Að lagðar verði 1.000 millj. kr. til viðbótar árlega úr ríkissjóði til frekari flýtingar almennra vegaframkvæmda en nú er fyrirhuguð.

3. Að sett verði í gang umfangsmikil áætlun í jarðgangagerð með framkvæmdum sem hefjist á Austurlandi eins og til hefur staðið og síðan einnig í beinu framhaldi eða samsíða á Norðurlandi og Vestfjörðum.

4. Að veitt verði árlega 500 millj. kr. til stuðnings félagslegri þjónustu og rekstri fjárhagslega veikburða sveitarfélaga. Einn vandinn sem við er að glíma er sá að fjölmörg fjárhagslega veikburða sveitarfélög eru að kikna undan þeim byrðum sem þau bera við að halda uppi eðlilegri þjónustu við erfiðar aðstæður á sínum svæðum.

5. Að veitt verði árlega 500 millj. kr. til að bæta fjarskipti og efla flutningsgetu grunnnetsins til að tryggja að öll byggðarlög landsins njóti jafnræðis í fjarskiptaþjónustu bæði hvað varðar verð og gæði.

6. Að varið verði árlega allt að 300 millj. kr. til þess að koma á og efla framhaldsnám og fjarnám í afskekktum byggðarlögum. Það stendur fjölmörgum slíkum byggðarlögum verulega fyrir þrifum að allir unglingar á framhaldsskólaldri þurfa að fara burtu til náms.

7. Að varið verði árlega allt að 150 millj. kr. til að efla heilsugæslu og tryggja mönnun heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni.

8. Að varið verði árlega allt að 150 millj. kr. í átak til að dreifa störfum í opinberri stjórnsýslu og þjónustu um landið. Úr því að einkaaðilar geta sett upp fjölmörg fyrirtæki á sviði fjarvinnslu vítt og breitt um landið ætti stjórnvöldum og hinu opinbera ekki að vera vandinn að gera það sama.

9. Að veitt verði árlega 150 millj. kr. í viðbót til að koma þriggja fasa rafmagni í öll byggðarlög og allar sveitir landsins í staðinn fyrir þann niðurskurð sem þar er núna fyrirhugaður samkvæmt fjárlagafrv.

Síðan eru þrír liðir sem lúta meira að stefnumótun eða slíkum þáttum.

10. Að hraðað verði stefnumótun í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum.

11. Að hraðað verði endurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga.

12. Að gerð verði úttekt á mögulegum breytingum í skattamálum sem gætu átt þátt í að efla atvinnu og treysta forsendur byggðar á landsbyggðinni.

Við leggjum svo til að lokum, herra forseti, að að þremur árum liðnum skuli meta árangurinn af framangreindum aðgerðum og stöðu byggðamála almennt í landinu. Á grundvelli þeirrar úttektar skuli ríkisstjórnin leggja fyrir Alþingi tillögur um framhald aðgerða eftir því sem aðstæður þá bjóða, þ.e. þetta þurfi ekki endilega að vera einungis fjögurra ára átak þó það sé lagt upp sem slíkt í byrjun, heldur gæti þar orðið framhald á allt eftir því hvernig staðan væri að þessum þremur árum liðnum.

Ég legg svo til, herra forseti, að að lokinni umræðunni verði tillögunni vísað til hv. allshn., geri ég ráð fyrir, eins og byggðamál hafa gengið til á þingum að undanförnu en þó gæti komið upp sú staða ef breyting yrði gerð á forræði byggðamála að önnur þingnefnd tæki þar við og þá treysti ég því að fyrir því yrði séð að tillagan færi til réttra aðila ef svo bæri undir.