Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 17:51:10 (440)

1999-10-12 17:51:10# 125. lþ. 7.13 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[17:51]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það er fjölmargt í þessu máli sem ég tel að falli mjög að þeim hugmyndum sem við höfum í Frjálslynda flokknum um styrkingu byggðar á landinu. Það er þó eitt atriði sem ég vil vekja athygli á, það er 3. liður sem er um vegagerðina. Auðvitað hefði verið miklu betra ef framkvæmdir við jarðgöngin á Austfjörðum væru þegar hafnar. Í raun er dapurlegt til þess að vita að jafnmiklar og góðar samgöngubætur eins og jarðgöng eru og við höfum reynslu af á Vestfjörðum skuli hafa stöðvast með þeim hætti sem hefur orðið út um hinar dreifðu byggðir landsins. Þess vegna væri mikið fagnaðarefni ef menn kæmust nú í gang sem allra fyrst þannig að þeir sem þurfa virkilega á svona samgöngumannvirkjum að halda væru komnir aftur í einhverja röð um það.

Þannig hagar til í kjördæmi mínu, á Vestfjörðum, að þar verða málin best leyst með því að þora að nefna önnur jarðgöng. Það er eins og það megi ekki nefna önnur jarðgöng af því að búið er að gera ein. Menn eru enn þá að baksast við að kortleggja einhverja vegi yfir fjöll í algeru tilgangsleysi fyrir framtíðina. Þess vegna mundi ég vilja segja það enn á ný að vissulega hefði verið miklu betra ef menn hefðu ekki verið að telja upp röðina Norðurland, Vestfirðir, en málin á Austfjörðum væru komin lengra.