Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 17:52:57 (441)

1999-10-12 17:52:57# 125. lþ. 7.13 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tæplega kallað þetta svar við andsvari því að ég er svo rækilega sammála hv. síðasta ræðumanni sem nokkur getur verið. Ég hef reynt að malda í móinn og andæfa því á Alþingi undanfarin ár að ekki væri staðið við þau plön sem lögð voru á sínum tíma og gengu út á tiltekna röð þessara framkvæmda sem þá tókst gott pólitískt samkomulag um, þ.e. að jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla kæmu fyrst, síðan jarðgöng á Vestfjörðum og síðan jarðgöng á Austurlandi í beinu framhaldi. Þannig voru málin lögð upp og á þeim grundvelli varð sá friður um þá röð sem raun bar vitni. Það var óþurftarverk, það er ekkert hægt að kalla það annað á íslensku en óþurftarverk að rjúfa þá samstöðu sem þannig skapaðist og í raun tefja fyrir framþróun þessara mála um mörg ár. En frammi fyrir því stöndum við nú. Ef menn hefðu í beinu framhaldi af framkvæmdum á Vestfjörðum, sem lauk árið 1996 eins og menn muna, því að þá voru göngin vígð, hafist handa á Austurlandi og þar hefðu staðið framkvæmdir í þrjú ár þá væru Siglfirðingar kannski í þann veginn að fá upphaf framkvæmda sinna í gang. Þá gæti verið orðið talsvert styttra í Hrafnseyrarheiðina, sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson sé m.a. að hugsa sérstaklega um, en við stöndum frammi fyrir nú. Þetta var m.a. það sem ég var að reyna að andmæla og andæfa gegn á sínum tíma þegar ljóst var að byrjað var að myndast gat í þá framkvæmdaáætlun sem áður hafði verið sett upp. Að sjálfsögðu hefði það ekki munað því sem við hefðum ekki getað haldið út í samfelldum framkvæmdum með nokkur hundruð millj. kr. fjárveitingum árlega ef pólitískur vilji hefði verið fyrir hendi.

Herra forseti. Reyndar er líka dapurlegt að heyra fulltrúa sömu flokka og hafa drepið þessu máli á dreif á Austurlandi koma nú og vera að gera við það gælur að Austfirðingar fái kannski jarðgöng ef þeir taki við álverinu og virkjunum.