Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 18:01:36 (446)

1999-10-12 18:01:36# 125. lþ. 7.13 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[18:01]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fjallaði um að fyrrv. samgrh. Halldór Blöndal marglýsti því yfir og margfór í gegnum þau gögn að þetta er hvergi staðfest hér eða skjalfest á Alþingi að einhver framkvæmdaáætlun um jarðgangagerð á Austurlandi skyldi koma næst á eftir Vestfjarðagöngum. Það er hvergi til. Og þó að einhver samgrh., sem getur vel verið að hafi verið hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, hafi fjallað um það úr þessum ræðustól að eitthvað slíkt stæði til eða fjallað um 3--4 millj. til undirbúningsrannsókna, þá er ekki þar með sagt að samþykkt sé frá hinu háa Alþingi um að þau jarðgöng eða þessi tiltekna framkvæmd skyldi vera næst á dagskrá. Það er hvergi neitt um það. Og ég held að það sé langbest að vitna í orð fyrrv. samgrh. um að þetta var hvergi til og þarf ekkert að vera að karpa um það. Við landsbyggðarmenn eigum ekki að vera að karpa um hvað kemur næst. Við eigum að takast á um það að koma framkvæmdum í gang. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. sem um þetta hafa fjallað að það er vissulega dapur tími sem hefur liðið frá því að Vestfjarðagöng voru kláruð og ekkert verið gert í þessum málum.