Sérstakar aðgerðir í byggðamálum

Þriðjudaginn 12. október 1999, kl. 18:02:58 (447)

1999-10-12 18:02:58# 125. lþ. 7.13 fundur 10. mál: #A sérstakar aðgerðir í byggðamálum# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 125. lþ.

[18:02]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst hv. þm. Kristján L. Möller vera óheppinn með heimildarmann þegar hann ber aðallega fyrir sig hæstv. fyrrv. samgrh., Halldór Blöndal. Hvaða maður er það? Það er sökudólgurinn sjálfur. Það er sá maður sem ber mesta ábyrgð á því að einmitt jarðgangaframkvæmdunum á Austurlandi var drepið á dreif og væntanlega er hv. þm. Kristján L. Möller ekkert sérstaklega ánægður með það eða telur hann að það komi til með að flýta fyrir göngum til Siglufjarðar að ekkert hefur núna verið gert í fjögur ár? Nei, auðvitað ekki. Það er eiginlega alveg borðleggjandi að þau verða einmitt þeim fjórum árum seinna á ferðinni en ella hefði getað orðið.

Það þýðir auðvitað ekki að tala svona um þetta þegar staðreyndirnar liggja algerlega á borðinu hvað sem hv. þm. Kristján L. Möller reynir að segja og hvað sem hæstv. fyrrv. samgrh., Halldór Blöndal, reynir að segja. Í vegáætlun 1989 komu þessar framkvæmdir í fyrsta skipti inn. Þá eru þær í fyrsta skipti settar inn sem stórverkefni. Þá er farið að setja í það fjárveitingar til að undirbúa framkvæmdir á Vestfjörðum og fara af stað með undirbúningsrannsóknir á Austurlandi. Í vegáætlun 1991 og í drögum, tillögu að langtímaáætlun 1991 eru þessar framkvæmdir sýndar í þessari röð og áætlað hvað það muni kosta að gera jarðgöngin á Vestfjörðum og síðan jarðgöng á Austurlandi. Þá er sett framkvæmdafjárveiting á Vestfirðina og framkvæmdirnar hefjast innan við ári síðar eins og menn muna. Sem betur fer voru Vestfjarðagöngin boðin út áður en stjórnarskipti urðu árið 1991 þannig að sú ríkisstjórn sem tók við gat ekki hætt við þau og settar eru undirbúningsfjárveitingar til rannsókna á Austurlandi á hvert ár og skipuð var nefnd með þátttöku heimamanna á Austurlandi undir forustu Helga Hallgrímssonar vegamálastjóra. Alla vega var samkomulagið ekki verra en það að Austfirðingar komu af fúsum og frjálsum vilja inn í það samstarf við Vegagerðina um að nota tímann á meðan framkvæmdirnar væru í gangi á Vestfjörðum til þess að undirbúa þetta á Austurlandi og ákveða hvar yrði byrjað. Þetta eru staðreyndir, hv. þm., og það þýðir ekki að neita þeim.