Endurskoðun laga um almannatryggingar, skatta og lífeyrissjóði

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 13:41:08 (455)

1999-10-13 13:41:08# 125. lþ. 8.1 fundur 27. mál: #A endurskoðun laga um almannatryggingar, skatta og lífeyrissjóði# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[13:41]

Fyrirspyrjandi (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Eins og við var að búast þá eru ýmis sjónarmið uppi í þessu máli. Hér kom í pontu hv. þm. úr röðum Sjálfstfl. og lýsti áhyggjum yfir því að menn væru oftryggðir í almannatryggingakerfinu. Hann nefndi reyndar einnig að ástæða væri til að hafa áhyggjur af vantryggingu svo að hann njóti sannmælis. En ég hef meiri áhyggjur af því að fólk sem nýtur bóta í almannatryggingakerfinu sé vantryggt og að í mörgum tilvikum séu jaðarskattar of háir.

Ég tek undir það með hæstv. forsrh. að það er mjög mikilvægt að vandað sé til þessarar vinnu og legg jafnframt áherslu á að um niðurstöðuna ríki víðtæk samstaða. Forsenda þess er að ólíkum sjónarmiðum sé hleypt að vinnunni og ég tek undir það sem fram hefur komið hjá öðrum hv. þm. í umræðunni, að það er mjög mikilvægt að fulltrúar stjórnarandstöðunnar á Alþingi komi að málinu. Það hefur því miður gerst í öðrum málaflokkum að stjórnarandstaðan hefur annaðhvort verið algerlega útilokuð eða að hluta, eins og í nefndaskipan um endurskoðun á stjórn fiskveiða. Aðra nefnd hef ég einnig nefnt, það er nefnd um endurskoðun á tekjustofnum sveitarfélaga. Þar á þingflokkur okkar t.d. ekki aðild.

Ég tek undir þær spurningar sem hér hafa komið fram og hefur verið beint til hæstv. forsrh. Á hvern hátt mun stjórnarandstaðan á Alþingi koma að þessari vinnu? Við gerum þá eindregnu kröfu að svo verði.