Samstarf atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 13:54:06 (460)

1999-10-13 13:54:06# 125. lþ. 8.3 fundur 42. mál: #A samstarf atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. fyrirspyrjanda og ekki síður fyrir svör hæstv. ráðherra um leið og ég lýsi sérstakri ánægju með það hvernig til hefur tekist um símenntunarstöðvar um landið, eins og heyra mátti á upptalningu hæstv. ráðherra. Það eru ekki nema þrjú ár liðin síðan lög um framhaldsskóla voru sett með þessu heimildarákvæði til framhaldsskóla. Úr þessum ræðustóli m.a. heyrðust ýmsar efasemdarraddir um þetta ákvæði. En annað hefur komið á daginn sem hefur sýnt að þær efasemdarraddir voru óþarfar því að mjög vel hefur tekist til með rekstur þessara símenntunarmiðstöðva. Ég tel einmitt að einn meginkostur þeirra sé sá að þær eru ekki í eigu framhaldsskólanna. Þær eru heldur ekki í eigu atvinnulífsins heldur sjálfseignarstofnanir í sameiginlegri eigu þessara aðila og þannig hefur tekist að efla símenntun úti á landsbyggðinni með verulega góðum árangri og er það mikill styrkur fyrir byggðir landsins.