Samstarf atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 13:55:26 (461)

1999-10-13 13:55:26# 125. lþ. 8.3 fundur 42. mál: #A samstarf atvinnulífs og skóla á landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[13:55]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég er satt best að segja ekki miklu nær um hvaða fyrirheit kunna að felast í byggðastefnu ríkisstjórnarinnar eftir svör hæstv. ráðherra. Mér sýndist að það sem handfast væri í því sem sneri að menntmrn. væri nokkuð sem löngu er gert, þ.e. þriggja ára gamall gerningur frá því þegar ákvæðið var sett í lög um það að símenntunarmiðstöðvar gætu orðið til. Það er vissulega rétt sem hér hefur komið fram að þær hafa orðið til. Áður voru til farskólar. Því miður er ekki nógu mikið nýtt í þessu, það mætti gjarnan vera meira og ég harma það ef ráðuneytið hefur ekki hugsað sér að koma að málinu öðruvísi en hér hefur verið rakið vegna þess að mér sýnist að það þurfi að gera meira til þess að ná menntamálum, ekki hvað síst þeim málum sem snúa að sí- og endurmenntun, á betra flug víða úti um landið heldur en er.

Ráðherra nefndi tæknibúnað. Það væri hægt að hafa langt mál um það hvað þarf að gera til þess að þau mál komist í lag til þess menn geti nýtt sér þá tækni sem möguleikar eru á því að það virðist sem svo að seint gangi að ná samningum um hagnýtingu tækninnar.

Herra forseti. Ég vil þó í lokin lýsa yfir ánægju með að ekki skuli vera um niðurskurð að ræða eins og virðist vera þegar fjárlagafrv. er skoðað. Ég veit að það hlýtur að gleðja ýmsa sem starfa í þessum geira sem óttuðust mjög að það væri veruleikinn sem þar blasti við þeim. En ef annar liður á að bæta þetta upp sem gerir það að verkum að ekki verður minna á næsta ári en er í ár, þá er það mjög gott þó að vissulega þyrfti kannski frekar að bæta í.