Framboð á leiguhúsnæði

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:02:41 (464)

1999-10-13 14:02:41# 125. lþ. 8.4 fundur 30. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:02]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á þessu ári hefur ýmsum aðgerðum sem lúta að eflingu leigumarkaðar verið hrint í framkvæmd. Nú er unnið að nýjum tillögum á vegum félmrn. um hvernig efla megi leigumarkaðinn. Umframeftirspurn eftir leiguhúsnæði er nær eingöngu bundin við höfuðborgarsvæðið og meginástæðan fyrir aukinni eftirspurn eru náttúrlega hinir miklu þjóðflutningar sem eru í þjóðfélaginu. Fólkið streymir á suðvesturhornið og skilur eftir autt eða verðlítið húsnæði í heimabyggðum sínum og þar að auki hefur stóraukinn kaupmáttur stuðlað að verðhækkunum á húsnæðismarkaði.

Fyrstu níu mánuði þessa árs fluttust 2.050 fleiri einstaklingar til höfuðborgarsvæðisins en frá því. Þann 1. janúar sl. tóku gildi ný lög um húsaleigubætur sem fólu í sér verulega fjölgun þeirra sem eiga möguleika á því að fá húsaleigubætur. Með lögunum var gert skylt að greiða húsaleigubætur í öllum sveitarfélögum en það var áður bundið ákvörðun sveitarstjórnar og jafnframt var leigjendum í leiguíbúðum sveitarfélaga veittur aðgangur að húsaleigubótum. Í ársbyrjun voru húsaleigubætur hækkaðar um 13% og jafnframt var frítekjumarkið hækkað í 1.600 þús. kr. á ári, þ.e. húsaleigubætur byrja ekki að skerðast fyrr en tekjurnar eru orðnar 1.600 þús. Bætur skerðast um 1% á mánuði af árstekjum umfram 1,6 millj. Hámark húsaleigubóta eru 21 þús. á mánuði. Ef ég nefni dæmi um hjón með þrjú börn með 40 þús. kr. leigu á mánuði og 3,1 millj. í árstekjur, þá ættu þau að fá 7.900 á mánuði í húsaleigubætur.

Í byrjun ársins bárust leiguíbúðarumsóknir til Íbúðalánasjóðs frá 14 sveitarfélögum um samtals 272 íbúðir og frá 11 félagasamtökum um 296 leiguíbúðir. Íbúðalánasjóður hefur lofað lánum til 476 íbúða og öllum beiðnum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu var svarað jákvætt. Aldrei áður hefur félagslegum framkvæmdaaðilum á Íslandi staðið til boða jafnmikið lánsfé til að byggja eða kaupa leiguíbúðir. Á tímabilinu 1991--1997 voru að meðaltali veitt 270 lán á ári og eru þá kaupleiguíbúðir, bæði almennar og félagslegar, teknar með en þær hafa margar hverjar breyst í eignaríbúðir.

Ég skipaði í fyrra nefnd til að gera úttekt á leigumarkaðnum hér á landi og kanna þörf fyrir leiguíbúðir næstu ár í samráði við fulltrúa sveitarfélaga og aðra félagslega byggingaraðila, ASÍ og BSRB. Nefndinni var jafnframt falið að meta nauðsyn þess að gera breytingar á húsaleigulögunum. Gagnasöfnun þeirrar nefndar er lokið. Það má reikna með að í kringum 1.500 fjölskyldur eða einstaklingar óski eftir leiguíbúð og þegar á þessu ári er þriðjungnum af þeirri þörf svarað. Meginmeinið er náttúrlega að mikil þensla hefur verið á höfuðborgarsvæðinu og það verkar á verð leiguhúsnæðis og á húsnæðisverð. Ný lög um Íbúðalánasjóð gefa tilefni til aukinna byggingarframkvæmda á leiguíbúðum og rýmka aðstöðu þeirra sem kjósa að leigja sér húsnæði.

Sú nefnd sem ég gat um áðan og er skipuð m.a. fulltrúum frá ASÍ og BSRB og Samtökum sveitarfélaga og tveimur fulltrúum annarra félagslegra framkvæmdaaðila vinnur nú að endanlegri tillögugerð sem mun ljúka alveg á næstunni og ég á von á góðum tillögum um leiðir til að auka framboð leiguhúsnæðis frá nefndinni.