Framboð á leiguhúsnæði

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:11:12 (467)

1999-10-13 14:11:12# 125. lþ. 8.4 fundur 30. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég tel að það sé mjög ofmælt hjá hv. þm. að hér ríki neyðarástand á húsaleigumarkaði --- það er ekki rétt. Hitt er rétt að nokkur vöntun er á leiguhúsnæði.

Það er ýmislegt gleðilegt að gerast í húsnæðismálunum. T.d. dregur stórlega úr vanskilum hjá Íbúðalánasjóði þannig að fólk á almennt miklu betra með að standa í skilum en það hefur gert undanfarin ár. Þetta er allt annað líf að því leyti til.

Ekki þarf að efast um það að þegar fjöldi fólks tekur sig upp af landsbyggðinni og flytur til höfuðborgarsvæðisins, þarf það náttúrlega þak yfir höfuðið. Aukinn kaupmáttur hlýtur einnig að leiða til þess að menn bjóða hærra í það húsnæði sem laust er eða er til sölu. Ég tel að húsaleigubæturnar hafi verið veruleg réttarbót fyrir leigjendur. Það er svolítið til í því hjá hv. þm. Pétri Blöndal að að einhverju leyti hefur þetta orðið til þess að hækka leigu, það er vafalaust rétt. Húsaleigubæturnar eru alls ekki gallalausar. Það er t.d. í þeim ákveðin þversögn sem sérstaklega kemur niður á stúdentum. Stúdentar sem leigja íbúð fá húsaleigubætur en stúdentar sem leigja einungis herbergi sem ekki telst íbúð eiga ekki kost á húsaleigubótum, þannig að stúdentinn sem leigir herbergi getur verið á verri kjörum en sá sem leigir íbúð. Þetta eru atriði sem við þurfum að hugleiða hvort ekki er hægt að lagfæra, og í gangi er vinna milli ríkis og sveitarfélaga um hvernig framtíðarstuðningi við öflun leiguhúsnæðis verður háttað. Það er rétt hjá hv. þm. að þetta er bráðabirgðaákvæði til tveggja ára en fyrir þann tíma átti að ljúka samningunum við sveitarfélög.