Varasjóður fyrir lán Byggingarsjóðs verkamanna

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:14:02 (468)

1999-10-13 14:14:02# 125. lþ. 8.5 fundur 36. mál: #A varasjóður fyrir lán Byggingarsjóðs verkamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:14]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á afar erfiðri stöðu margra sveitarfélaga í landinu varðandi félagslegar eignar\-íbúðir sem eru á þeirra vegum og þeirri miklu greiðslubyrði sem þeim eignum fylgir sem afleiðing af búferlaflutningum fólks af landsbyggðinni. Við höfum kynnst því að undanförnu. Sveitarstjórnarmenn hafa komið og gert okkur grein fyrir þessu. Skuldastaða þeirra vegna þessa málaflokks er í sumum sveitarfélögum alveg geigvænleg og sveitarfélögin sjá ekki fram úr því hvernig úr muni rætast. Það er ekki hægt eða ekki svo auðvelt að selja þær íbúðir á markaðsverði því að þá lendir mismunurinn á sveitarfélögunum. Gert er ráð fyrir því í lögum um Íbúðalánasjóð að sérstakur varasjóður sem tekur við skuldbindingum Byggingarsjóðs verkamanna varðandi þetta sé virkur og þangað sé hægt að sækja fjármagn til að greiða þann mismun.

Ég vildi því leyfa mér að spyrja hæstv. félmrh.:

1. Hvenær verða frágengnar reglur um hlutdeild varasjóðs, samkvæmt X. kafla laga um húsnæðismál og ákvæði til bráðabirgða VIII í sömu lögum, í afskriftum eða niðurgreiðslu á eldri veðlánum Byggingarsjóðs verkamanna?

2. Hvernig hefur verið háttað samráði við sveitarfélögin um þetta mál?

3. Hve mikil er heildarafskriftarþörf vegna innlausnarskyldu sveitarfélaganna metin og á hvaða svæðum vandi er mestur?

Ég vænti þess líka að ráðherra geti gert okkur grein fyrir því hvernig ætlunin er að bregðast við.