Varasjóður fyrir lán Byggingarsjóðs verkamanna

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:20:09 (470)

1999-10-13 14:20:09# 125. lþ. 8.5 fundur 36. mál: #A varasjóður fyrir lán Byggingarsjóðs verkamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:20]

Árni Steinar Jóhannsson:

Herra forseti. Umræða um málefni sveitarfélaganna hvað varðar félagslegar íbúðir og vandræðin sem eru samfara rekstri þeirra hefur átt sér langan aðdraganda. Bent var á það í hinni pólitísku umræðu á sínum tíma alls staðar úti í þjóðfélaginu að uppsetningin á því kerfi sem var sett í gang væri röng og stórhættuleg gagnvart þeim byggðarlögum þar sem hætta væri á að fólki fækkaði. Það hefur aldeilis komið á daginn að á síðustu árum hefur þetta verið klafi á sveitarsjóðum margra sveitarfélaga. Eftir þeim upplýsingum sem ég hef stendur á því að ríkisvaldið komi myndarlega á móti sveitarfélögunum til þess að leysa vandann.

Ég vil árétta það, hæstv. félmrh., að þetta er mjög brýnt vandamál sem þarf að leysa vegna þess að í mörgum tilfellum eru sveitarsjóðirnir þannig settir að þetta tekur nánast allt það fjármagn sem út af stendur til uppbyggingar á öðrum sviðum í viðkomandi sveitarfélögum. Þetta er einn liður í að leysa úr vanda landsbyggðarinnar og ég vonast til þess að gengið verði rösklega til verks og ríkissjóður Íslands komi myndarlega fram á móti sveitarfélögunum til að leysa vandann.