Varasjóður fyrir lán Byggingarsjóðs verkamanna

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:23:35 (472)

1999-10-13 14:23:35# 125. lþ. 8.5 fundur 36. mál: #A varasjóður fyrir lán Byggingarsjóðs verkamanna# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:23]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með bæði fyrirspyrjanda og hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni að hér er um stóralvarlegt mál að ræða. Þetta er eitt af vandasamari byggðamálum sem við eigum við að stríða nú um stundir. Það er fullur vilji hjá stjórnarflokkunum að leysa skikkanlega úr því.

Hins vegar er rétt að hafa það í huga og það er ekki sanngjarnt að ætlast til þess að ríkið leysi vandann allan. Sveitarfélögin þurfa líka að koma að málinu því að ekkert félagslegt húsnæði hefur verið byggt nema samkvæmt ósk viðkomandi sveitarfélags. Því hlýtur einhver ábyrgð forráðamanna sveitarfélaganna að liggja þarna að baki.

Varasjóðurinn ræður ekkert við þetta verkefni nema þá á einhverjum óratíma og ég kalla gott ef hann ræður við það að halda í horfinu. Það er alveg nauðsynlegt að taka til fjármagn á fjárlögum til þess að leysa málið skikkanlega. Hægt er að hugsa sér að Íbúðalánasjóður beri einhverjar afskriftir en þá er líka kominn vandinn með jafnræðið. Á að láta alla sitja við sama borð eða á að hlaupa sérstaklega undir bagga með þeim sveitarfélögum sem hafa e.t.v. ekki sinnt því eða a.m.k. ekki haft það í neinum forgangi að standa í skilum við Íbúðalánasjóð eða Byggingarsjóð verkamanna sem átti reyndar þessar skuldir meðan hann var og hét?