Áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:26:13 (473)

1999-10-13 14:26:13# 125. lþ. 8.6 fundur 37. mál: #A áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrirspurn sú sem hér er lögð fram er í tilefni af þeirri umræðu sem er í landinu um stóra álbræðslu á Austfjörðum, nánar tiltekið á Reyðarfirði. Mig langar til að fá svar hæstv. félmrh. við því hvort álits hans hafi verið leitað í þeim efnum, hver áhrif svona álbræðsla gæti haft á hið fámenna samfélag sem er á Reyðarfirði eða kringum Reyðarfjörð í Fjarðabyggð því að á Reyðarfirði sjálfum búa einungis tæplega 700 manns. Allt byggðarlagið, Fjarðabyggð, telur um 3.300 manns en fjöldi þeirra sem kæmu til með að starfa í þeirri álbræðslu, sem er nú á teikniborðinu, er um það bil 650 manns og afleidd störf eru sennilega að lágmarki 800--1.000. Þegar allt er talið erum við kannski komin með íbúafjölgun á svæðinu hátt í 4.000 manns.

Þá er einnig gert ráð fyrir að mikill mannafli verði við byggingarframkvæmdir virkjunarinnar. Talið er að hann geti mestur orðið 1.000 manns á byggingartímabilinu, þ.e. við byggingu Fljótsdalsvirkjunar en 900 manns til byggingar álverksmiðjunnar sjálfrar.

Einnig langar mig til að heyra álit ráðherrans varðandi þau störf sem álver af þessu tagi kæmi til með að bjóða upp á en þau eru að mínu mati ekki eins fjölbreytt og hefur verið látið í veðri vaka því að hér er um að ræða um það bil 40% verkamannastörf, kannski 12--13% tæknimenn af þessum 650, en mergurinn málsins er sá að þetta eru fyrst og fremst karlastörf. Hér verða greinileg áhrif af því að umtalsverður fjöldi þessara starfa eru karlastörf. Spurningin er, hvaðan eiga konurnar að koma? Eiga þær að fylgja körlunum? Hvar eru störfin þeirra og þar fram eftir götum?

Þetta mál kemur hæstv. félmrh. mjög mikið við og félagsleg áhrif á þessa byggð gætu orðið talsvert mikil miðað við það sem mér sýnist þegar málið er reifað á þennan hátt. Þess vegna væri ákjósanlegt að heyra óyggjandi niðurstöður þeirra tilrauna sem eru í gangi til að styrkja byggð og sömuleiðis hvort leitað hafi verið eftir því að kanna áhrifin, sem nágrannalönd okkar, hafa af reynslu af þessu tagi að í Noregi, Svíþjóð og Skotlandi hafa verið sett niður stór álver, stórar málmbræðslur til þess að bjarga byggð í landshlutum og ekki tekist.