Áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:29:27 (474)

1999-10-13 14:29:27# 125. lþ. 8.6 fundur 37. mál: #A áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Jafnframt því að ég þakka fyrir ágætar fyrirspurnir, því að það er virkilega ástæða til að hugleiða þetta efni, þá vil ég taka það fram að ekki hefur verið leitað sérstaklega eftir áliti félmrn. á fyrirætlunum um byggingu álvers á Reyðarfirði enda er málið náttúrlega á vegum annars ráðuneytis. Þó kemur það allri ríkisstjórninni við og öll ráðuneyti geta komið að málinu með einum eða öðrum hætti.

Félmrn. fer með málefni sveitarfélaganna og þess vegna hef ég talið mér skylt að fylgjast sérstaklega með viðhorfum sveitarstjórnarmanna á Austurlandi til þessa máls og ég hef haft góða aðstöðu til þess.

Mig langar í þessu sambandi að vitna til samþykktar sem gerð var á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi núna í haust þar sem hvatt er mjög til byggingar álvers á Reyðarfirði og sú ályktun var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum gegn tveimur. Tveir sátu hjá ef ég man rétt.

Íbúum má gjarnan fjölga á Austurlandi. Þaðan hefur flutt fjöldi fólks og ég sé ekkert á móti því að fólk flytji til Austurlands þó að straumurinn hafi legið í aðra átt undanfarin ár.

Ég hef einnig reynt að kynna mér áhrif stóriðjurekstursins í Hvalfirði á sveitarfélögin þar í kring. Ég var mjög krítiskur á þær framkvæmdir á sínum tíma þegar hafist var handa um byggingu járnblendiverksmiðjunnar og óttaðist að þar mundu menn vera að lenda í vanda sem þeir sæju ekki fyrir. Þetta hefur leyst betur en ég óttaðist á þeim tíma. Ég gagnrýndi að vísu fyrst og fremst rafmagnsverðið sem mér þótti vera of lágt, að það borgaði sig ekki að byggja, virkja og selja rafmagn á því verði sem gert var í Hvalfirði. Ég held að það hafi komið allt saman á daginn að við höfum fram undir þetta þurft að greiða stórlega með rafmagninu til járnblendiverksmiðjunnar en það er að baki núna. Það er mat sveitarstjórnarmanna uppi á Hvalfjarðarströnd og Akranesi að mikill fengur hafi verið að þeim fyrirtækjarekstri sem þar fer fram.

Varðandi það að í álverum séu einungis karlastörf er það ekki að öllu leyti rétt. Mig langar til að nefna það að fyrir einum tveimur árum stóð ég fyrir veitingu viðurkenningar Jafnréttisráðs. Jafnréttisráð leggur til viðurkenningu eða biður ráðuneytið um að leggja til viðurkenningu á eitthvert fyrirtæki einu sinni ári þar sem jafnrétti er sýndur mestur sómi. Fyrir 2--3 árum fékk álverið í Straumsvík þessa viðurkenningu fyrir að vera sérstaklega kvennavænn vinnustaður enda má geta þess að forstjórinn er kona og konur hafa haft þar forgang til ýmissa starfa.

Hvað varðar spurninguna um áhrif stóriðjufyrirtækja á fámenn byggðarlög í öðrum löndum þá liggja ekki fyrir gögn í félmrn. sem ég get vitnað til. Mér finnst að leiða mega líkur að því að svipað muni verða uppi þar og hér um fábreytt atvinnulíf, að það sé áhættusamt í litlum byggðarlögum. Alveg eins og þegar fiskur bregst eða kvóti fer eða kvóti tapast getur það haft mjög slæm áhrif á viðkomandi byggðarlag. Sama gegnir að sjálfsögðu um byggðarlag sem byggir á málmbræðslu, t.d. vegna breyttrar tækni eða hráefnisskorts eða af öðrum ástæðum, ef snögglega dregur úr framleiðslu, þá skapast auðvitað mikill vandi.

Varðandi Reyðarfjörð sérstaklega eða Fjarðabyggð, þá er þetta viðbót við þróttmikið atvinnulíf sem er þar fyrir hendi.

Hv. fyrirspyrjandi spurði hver væri skoðun ráðherra á málinu. Yfirgnæfandi meiri hluti Austfirðinga óskar eftir því að reist verði stóriðja á Reyðarfirði og telur að það geti orðið Austurlandi til framdráttar. Ég fellst á þá skoðun.