Áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:36:21 (476)

1999-10-13 14:36:21# 125. lþ. 8.6 fundur 37. mál: #A áhrif stórrar álbræðslu á fámennt samfélag# fsp. (til munnl.) frá félmrh., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:36]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að taka undir þá skoðun hæstv. félmrh. að fjölga megi íbúum á Austurlandi. Ég held að það verði hreint ekki til skaða. Hins vegar er mikill skaði af þeim félagslegu áhrifum sem miklir fólksflutningar frá landsvæðum eins og af Austurlandi hefur á mannlíf þar. Það er augljóst að mikil fjölgun íbúa mun hafa félagsleg áhrif. Að mínu áliti og með reynslu af því að búa í sveitarfélagi af þeirri stærð þá held ég að þau félagslegu áhrif verði jákvæð.

Eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi verður þarna til dálítið af verkamannastörfum sem ég held að sé mjög jákvætt. Störfum verkamanna á Austfjörðum hefur fram undir þetta fækkað mjög verulega vegna tæknivæðingar m.a. í fiskiðnaði. Við þurfum á því að halda að fá fleiri störf.