Kostnaður af losun gróðurhúsalofttegunda

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 14:57:23 (489)

1999-10-13 14:57:23# 125. lþ. 8.8 fundur 33. mál: #A kostnaður af losun gróðurhúsalofttegunda# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[14:57]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Á þskj. 33 spyr hv. þm. Kolbún Halldórsdóttir um kostnað við losun á gróðurhúsalofttegundum.

Í fyrsta lagi spyr hv. þm.: ,,Hverjum ætlar ríkisstjórnin að bera hugsanlegan kostnað af losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðjufyrirtækjum hérlendis?``

Ekki hefur verið tekin afstaða til þess hver eigi að bera hugsanlegan kostnað af slíku, hvorki frá fiskiskipum, stóriðju, landbúnaði eða bílum né öðrum flutningatækjum.

Fylgt hefur verið þeirri stefnu, sem reyndar var vikið að áðan, þ.e. stefnu ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var í október 1995 og fól í sér að stefna að því að losun gróðurhúsalofttegunda yrði ekki meiri um aldamótin en hún var árið 1990 ef frá er talin losun vegna iðnferla í nýjum orkufrekum iðnaði. Og hv. þm. vitnaði í það áðan í fyrri fyrirspurn að sá árangur og þær áætlanir væru að ganga eftir og það hefði komið fram af hálfu umhvrn. Ríkisstjórnin er því nú innan þeirra marka sem hún setti sér í stefnumótun sinni 1995.

Í öðru lagi spyr hv. þm.: ,,Hversu háum fjárhæðum gæti slíkur kostnaður numið af losun CO2-ígilda frá 480 þúsund tonna álbræðslu miðað við núverandi hugmyndir manna um markaðsverð á losunarkvótum?``

Áætlað er að heildarlosun gróðurhúsalofttegunda við framleiðslu á einu tonni af áli jafngildi um 1,75--1,8 tonni koltvíoxíðsgilda. Fyrir 480 þús. tonna álver þýðir það um 840--864 þús. tonn af koltvíoxíðsgildum losna við framleiðsluna. Ekkert markaðsvirði er til á losunarkvótum og það vil ég undirstrika. Enda er hvorki búið að semja um reglur varðandi viðskipti með losun á kvóta eða önnur svokölluð sveigjanleikaákvæði sem Kyoto-bókunin gerir ráð fyrir. Verður til að mynda sett þak á heimildir ríkja til að nýta sér sveigjanleikaákvæðin, eins og t.d. Evrópusambandið hefur gert kröfu til? Ef svo er, hvert verður það þak? Markaðsvirðið á einnig að ráðast af ákvæðum sem á eftir að semja um hvað varðar að framfylgja ákvæði bókunarinnar. Ef ströng viðurlög verða sett við því að brjóta ákvæði bókunarinnar verður markaðsvirðið væntanlega hátt, svo dæmi sé tekið. Ef hins vegar afleiðingarnar yrðu einungis að ríki sem væru brotleg mættu ekki eiga viðskipti með kvóta yrði verðgildið væntanlega lágt. Um öll þessi atriði og raunar miklu, miklu fleiri er eftir að semja, þannig að á þessari stundu er algjörlega útilokað að fullyrða um það hvert þetta markaðsvirði yrði.

[15:00]

Í þriðja lagi spyr hv. þm.:

,,Hvaða hugmyndir hafa menn gert sér um greiðslur fyrir losunarkvóta í hagkvæmniforsendum álbræðslu á vegum Noral á Reyðarfirði, bæði í fyrsta áfanga og síðari áföngum hennar?``

Ég held að ég sé búinn að svara þessari spurningu hv. þm. með svörum mínum við fyrstu og annarri spurningu fyrirspurnarinnar.

Í fjórða lagi er spurt:

,,Er fyrirliggjandi arðsemismat fyrirhugaðrar álbræðslu á Reyðarfirði, frá fyrsta áfanga og til síðari áfanga hennar? Ef svo er, hvernig hefur verið tekið á svokölluðum fórnarkostnaði í því mati?

Fyrir liggur bráðabirgðaniðurstaða í formi forkönnunar á hagkvæmni arðsemi fyrsta áfanga álvers á Reyðarfirði. Unnið er að hagkvæmnisathugun þess áfanga en niðurstöður liggja ekki fyrir. Að því er varðar fórnarkostnað þá er um það að segja að ekki er venja þegar reiknuð er út arðsemi fjárfestingar í fyrirtækjarekstri að taka tillit til annars en beins fjárfestingar- og rekstrarkostnaðar sem fyrirtækið verður að mæta. Hugtakið fórnarkostnaður, eins og hv. þm. fór með það áðan, er út frá skilgreiningu hagfræðinnar algerlega rangt vegna þess að það sem þarf að taka tillit til þegar talað er um fórnarkostnað, er hvað annað kæmi þá í staðinn, t.d. varðandi ráðstöfun fjármagns, varðandi ráðstöfun lands, varðandi ráðstöfun vinnuafls og fjölmargra annarra framleiðsluþátta. En þarna er ekki, eins og hv. þm. setti sína spurningu fram, verið að spyrja um hvað annað eigi þá að gera. Því er ekki hægt að meta fórnarkostnað við beina fjárfestingu út frá þessum forsendum.

Í fimmta lagi er spurt:

,,Er gert ráð fyrir að álbræðslan verði búin vothreinsibúnaði til að takmarka útstreymi brennisteinssambanda og annarra skaðlegra efna?``

Gengið út frá því að við fyrstu 120 þús. tonna framleiðsluna verði ekki gert ráð fyrir vothreinsibúnaði vegna þess að það er ekki talið nauðsynlegt. Reynslan hefur sýnt okkur það hér á landi og farið hefur verið mjög rækilega yfir það hér, í iðnaðarnefnd og við fyrri umræðu um álbræðslur hér á landi, bæði í álverinu í Straumsvík og hjá Norðuráli á Grundartanga, að ekki er skynsamlegt að vera með vothreinsibúnað við 100 þús. tonna álver eða 120 þús. tonna álver heldur þegar næsti áfangi er tekinn. Það er stefna Norsk Hydro að nota vothreinsibúnað í öllum sínum fyrirtækjum eða þeim fyrirtækjum sem það á hlut í og þess vegna er í því samkomulagi sem núna er verið að ræða að vothreinsibúnaður verði notaður við annan áfanga en ekki við þann fyrsta, einfaldlega vegna þess að það er ekki nauðsynlegt. En ég undirstrika það að öll besta fáanleg tækni verður notuð við slíka framleiðslu.