Viðnám gegn byggðaröskun

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:24:48 (496)

1999-10-13 15:24:48# 125. lþ. 8.93 fundur 63#B viðnám gegn byggðaröskun# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:24]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. ríkisstjórn rekur eyðibyggðastefnu og árangur hennar er háskalegur. Hvað landbúnaðinn varðar trúir hæstv. ríkisstjórn enn á sauðkindina og íslenska kúastofninn og sér ekkert annað til ráða en óbreytta stefnu. Aðrar búgreinar mega spjara sig án hjálpar. Allan stuðning við landbúnað þarf að taka til endurskoðunar með það fyrir augum að gera öllum greinum landbúnaðar jafnhátt undir höfði. Það ætlar hæstv. ríkisstjórn ekki að gera.

Í sjávarútvegsmálum hefur ríkisstjórnin alveg skýra stefnu sem er fólgin í því að taka lífsgrundvöll sjávarbyggðanna og færa hann atvinnurekendum í sjávarútvegi. Þeir mega kaupa og selja og afleiðingar af þeirri stefnu eru daglega í fréttum. Þeirri stefnu ætlar ríkisstjórnin ekki að breyta. Menn hafa valið sér búsetu í sjávarbyggðunum vegna þess að þær eru í nálægð fengsælla miða. Þeir sem halda að einhverjar aðrar atvinnugreinar geti í komið í stað þeirrar tilveruforsendu eru á hættulegum villigötum. Byggðarlög verða ekki til fyrir tilviljanir, fólk tekur sér bólfestu að yfirveguðu ráði.

Eitt fiskiþorp sem hefur verið rúið réttinum til að nýta nálæg mið verður ekki miðstöð annars konar atvinnustarfsemi nema að það hafi eitthvað fram yfir aðra staði á landinu og alveg sérstaklega fram yfir höfuðborgarsvæðið sem gerir staðinn eftirsóknarverðan til að reka viðkomandi starfsemi.

Vegna gagnrýni á afleiðingar eyðibyggðastefnunnar var settur á byggðakvóti, sem er að vísu vitnisburður um hryggilegar afleiðingar stefnunnar, en hefur þó einhverju bjargað í bili. Honum hefur nú öllum verið ráðstafað og engin bráðabirgðaúrræði eru því tiltæk ef upp koma alvarleg vandamál vegna sölu veiðiheimilda úr byggðarlagi. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra, ætlar hann að beita sér fyrir því að veiðiheimildir verði til ráðstöfunar í þessu skyni eða telur hann kannski að Byggðastofnun hafi leyst endanlega vandamál af þessu tagi með töfrabrögðum sínum á sl. sumri?