Viðnám gegn byggðaröskun

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:29:17 (498)

1999-10-13 15:29:17# 125. lþ. 8.93 fundur 63#B viðnám gegn byggðaröskun# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:29]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Samkvæmt upplýsingum sem hæstv. félmrh. gaf fyrr á þessum fundi var fólksflóttinn frá landsbyggðinni ekki fimm manns á dag heldur u.þ.b. átta manns á dag. Ef við gerum ráð fyrir að þetta sé fjölskyldufólk og að meðaltali fjórar manneskjur í fjölskyldu, þá eru það tvær fjölskyldur á dag sem flóttann reka.

Brugðið hefur verið á það ráð að setja nefnd t.d. fyrir síðustu kosningar sem hv. 1. þm. Vestf. veitti forstöðu þar sem fitjað var upp á ýmsu sem átti að snúa þessari þróun við. Þar voru gerðar tillögur um vegabætur, húshitunarkostnað, námskostnað, hljómlistarhús o.s.frv.

[15:30]

En í allri umræðunni fer stjórnarliðið í kringum það eins og köttur í kringum heitan graut að nefna höfuðástæðu til þessara stórþjóðflutninga, þ.e. framkvæmd fiskveiðilagastefnunnar. Það er hún sem er hin sanna landeyðingarstefna eins og kom fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar.

Fyrir nokkrum árum stunduðu 70 trillur sjó frá Neskaupstað. Það voru u.þ.b. 100 fjölskyldur sem höfðu framfærslu af þeirri atvinnugrein og margur þeirra hafði það sem aðalatvinnugrein. Það munu hafa gjökt einar 10 trillur á því sumri sem nú er að líða. Í Húsavíkurhöfn var álíka fjöldi smábáta og mér er sagt að þeir hafi verið gerðir út þar fjórir samtals á þessu sumri. Þannig er þetta hvert sem augum er litið og eyru við lögð. Þetta má helst ekki nefna sem hér er orsökin að þeirri skelfilegu þróun sem við stöndum frammi fyrir og við höfum ekkert í höndunum annað en að stefnunni skuli haldið fram óbreyttri því ekki má trufla sægreifana í því að leggja undir sig auðlind Íslands.