Viðnám gegn byggðaröskun

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:35:51 (501)

1999-10-13 15:35:51# 125. lþ. 8.93 fundur 63#B viðnám gegn byggðaröskun# (umræður utan dagskrár), Flm. KLM
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég þakka fyrir þær stuttu umræður sem hér hafa verið. Eftirtektarvert er að aðeins þrír stjórnarþingmenn hafa séð ástæðu til þess að koma upp og ræða þessi mál. Ég vil bara segja það að ég mun halda áfram að reyna að vekja hv. þm. af þyrnirósarsvefni. Ég sakna að vísu ráðherra úr þingliði Framsóknarflokksins, formaðurinn er sennilega í útlöndum og það er táknrænt dæmi um landsbyggðarstefnu þeirra.

Ég segi bara rétt í lokin við hæstv. forsrh. Ég lít á það sem loforð hæstv. ráðherra um húshitun og jöfnun námskostnaðar --- það eru 250 millj. sem vantar á næsta fjárlagafrv. í húshitunina og 75 millj. í námskostnaðinn, 325 millj. Og ef marka má orð hæstv. ráðherra nú sem ég ætla ekki að draga í efa, þá hafa þessar 30 mín. skilað góðu og miklu.

Ég vil svo aðeins rétt í lokin fjalla um það og ítreka að það er eins og við manninn mælt að þegar rætt er um þennan vanda stekkur hv. þm. Hjálmar Jónsson upp og vill helst hengja íþróttakennara fyrir prest.

Lokaorð mín til sofandi stjórnarþingmanna féllu úr munni frelsarans og eiga vel við í umræðu um málefni landsbyggðarinnar, sérstaklega þegar höfð eru í huga orð hv. þm. Hjálmars Jónssonar sem segir að þetta sé grátklökkur æsingur landsbyggðarfólks. Landsbyggðarmaðurinn Hjálmar Jónsson, þetta eru slæm orð. Það sama vil ég segja við hv. þm. Ísólf Gylfa Pálmason.

Lokaorð mín eru þessi: ,,Með heyrninni munuð þér heyra og alls ekki skilja og sjáandi munuð þér sjá og alls ekki skynja því að hjarta lífs þessa er sljótt orðið og á eyrunum eru þeir orðnir daufir og augunum sínum hafa þeir lokað til þess að þeir sæju eigi með augunum og heyrðu með eyrunum.``