Viðnám gegn byggðaröskun

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:38:02 (502)

1999-10-13 15:38:02# 125. lþ. 8.93 fundur 63#B viðnám gegn byggðaröskun# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:38]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég varð ekki var við það hjá hv. málshefjanda að það kæmi nokkur ný hugmynd eða nokkur ný tillaga frá honum í allri umræðunni, jafnvel þó hann leitaði aftur í hæstu hæðir sjálfum sér til stuðnings og hjálpar og var ekkert á móti því. Ég vil hins vegar vekja athygli á því, hv. þm., að byggðaáætlun var samþykkt og hún er komin í verk og hennar mun sjá stað. Megininntak þeirrar byggðaáætlunar er að snúa vörn í sókn með því að færa framtak, frumkvæði og fjármagn út á land til heimamanna sjálfra. Ég hef fulla trú á því að þessi áætlun skili sér og með henni sé stigið skref til að snúa byggðaþróun í landinu við. Fullur vilji er til þess, það var gott samkomulag um þessa áætlun og með því að vinna hana og fylgja henni eftir erum við að vinna langtímastörf, ekki skammtímastörf. Ég held að við ættum að strengja þess heit, hér og nú, eins og við gerðum þegar þessi áætlun var í undirbúningi að fylgja henni fram hleypidómalaust, æsingalaust og af fullri festu og eindrægni. Þá munum við sjá árangur.