Meðferð á máli kúrdísks flóttamanns

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:47:24 (506)

1999-10-13 15:47:24# 125. lþ. 8.94 fundur 64#B meðferð á máli kúrdísks flóttamanns# (umræður utan dagskrár), dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:47]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég furða mig nokkuð á því að málið sem hér er á dagskrá skuli bera að sem utandagskrárumræðu. Nær hefði verið að óska eftir skriflegu svari við fyrirspurn um það. Málið hefur ekki verið á borðum dóms- og kirkjumrn. en samkvæmt gögnum sem ég hef aflað mér fæ ég ekki annað séð en rétt hafi verið staðið að málum eins og ég skal stuttlega rekja.

Málið rak á fjörur lögreglu þriðjudagskvöldið 5. október er hún frétti af þessum manni á gistiheimili hér í borg. Þangað var hann kominn fyrir milligöngu Rauða kross Íslands. Þar gat hann ekki framvísað neinum persónuskilríkjum. Lögreglan átti í fyrstu í miklum erfiðleikum með að ná sambandi við manninn sökum tungumálaerfiðleika en gat þó gert honum skiljanlega beiðni um að hann skrifaði nafn sitt, fæðingardag og heimaland. Gaf hann upp nafn sitt og fæðingardag og kvaðst vera frá Íran. Það reyndist síðan rangt, hann er frá Írak. Hann var skilríkjalaus að öðru leyti en því að í fórum hans fannst skírteini merkt Kurdistan United Artist Union með mynd af manninum. Lögreglumennirnir fengu hann svo til að fylgja sér á lögreglustöðina í Reykjavík þar sem lögfræðingi lögreglustjóraembættisins var kynnt málið. Jafnframt var fenginn lögmaður manninum til réttargæslu.

Við nánari eftirgrennslan lögreglu kom í ljós að maðurinn hafði leitað til Rauða krossins daginn áður en þangað hafði hann komið frá skrifstofu Amnesty-samtakanna hér í borg. Hjá Amnesty höfðu menn gripið til þess ráðs að hringja í aðalskrifstofu samtakanna í London og fá þar aðila sem talar kúrdísku til að ræða við manninn. Var þá upplýst að maðurinn óskaði eftir að leita hælis á Íslandi sem pólitískur flóttamaður. Þaðan hafði honum verið vísað til Rauða krossins.

Lögreglan hafði eftir þetta samband við Miðstöð nýbúa og óskaði þar aðstoðar við að fá túlk er talaði kúrdísku. Slíkri aðstoð var lofað en maðurinn var geymdur í fangageymslu lögreglunnar til næsta dags. Þá hófst á ný skýrslutaka af manninum og nú með aðstoð túlks.

Hér er ekki tími til að rekja allan framburð mannsins en í stuttu máli er hann á þann veg að hann fór frá Írak 1. septebmer sl. í hópi sex til sjö annarra einstaklinga. Fóru þeir yfir landamærin til Írans og síðan komust þeir til Istanbúl í Tyrklandi tíu dögum síðar. Kúrdi nokkur hafði um þetta milligöngu og fékk fyrir það 1.000 Bandaríkjadali í greiðslu. Fyrir 8.000 Bandaríkjadali til viðbótar tók svo nefndur Kúrdi að sér að koma manninum til einhvers lands fjarri Tyrklandi.

Eftir nokkra dvöl í Istanbúl fóru þeir svo saman með flugvél frá Istanbúl og segist maðurinn ekki vita með hvaða flugfélagi það var eða hver var fyrsti áfangastaður. Þar hafi hann beðið í eina klukkustund og síðan hafi hjálparmaðurinn bent sér á biðröð sem hann ætti að fara í og jafnframt lagt áherslu á að þegar hann væri kominn út úr flugstöðinni á næsta flugvelli yrði hann að eyðileggja farseðla, vegabréf og allt sem tengdist ferðalaginu. Hann segist svo hafa komið til Keflavíkurflugvallar í myrkri, farið í gegnum vegabréfaskoðun, skipt 100 dollara seðli við útganginn og síðan farið með rútu til Reykjavíkur. Hann segir konu sem hann hitti í flugvélinn hafa boðið sér að dvelja á heimili sínu. Þar dvaldist hann í fjóra daga en kvaðst ekki vita hver konan var eða hvar hann dvaldist. Konan hafi síðan ekið sér á skrifstofu Amnesty í Reykjavík þar sem hann hafi beðið um aðstoð við að sækja um hæli sem pólitískur flóttamaður.

Þetta er í stuttu máli saga mannsins. Um sannleiksgildi hennar er væntanlega erfitt að dæma en þetta er ekki eina dæmið þar sem við sögu koma milliliðir er taka háar fjárhæðir fyrir ómak sitt. Ólöglegir flutningar fólks frá örbirgðarsvæðum jarðar til þróaðri ríkja er stór atvinnuvegur sem veltir miklum fjárhæðum. Það er vel þekkt aðferð að láta fólkið eyðileggja öll skilríki við komu á endanlegan áfangastað og að fá það til að þegja yfir ferðaleiðinni. Það torveldar yfirvöldum í móttökuríkinu að senda það til baka, ef til kæmi, og sannreyna framburð sem gefinn er við komuna. Í þessu tilviki liggur einmitt fyrir játning mannsins um að hann hafi vísvitandi eytt öllum ferðaskilríkjum samkvæmt fyrirmælum þess sem skipulagði ferð hans til Íslands.

Lögregluyfirvöld eiga enn eftir að rannsaka ýmislegt í þessu máli og vinna þar eftir fyrirframgerðri rannsóknar\-áætlun. Á meðan vildu þau tryggja návist mannsins og gripu til þess ráðs sem um getur í 15. gr. laganna um eftirlit með útlendingum frá 1965, þ.e. gæsluvarðhalds með þeim tilslökunum sem leiðir af eðli máls.

Mér er ókunnugt um að á þetta hafi áður reynt en héraðsdómur féllst á rök lögreglunnar og úrskurðaði manninn í slíka gæslu. Réttargæslumaður mannsins kærði þann úrskurð til Hæstaréttar. Hæstiréttur féllst ekki á niðurstöðu héraðsdóms og felldi gæsluvistarúrskurðinn úr gildi. Þannig er unnið í réttarríki og ég sé ekkert athugavert við þau vinnubrögð lögreglunnar sem hér hefur verið lýst. Að sjálfsögðu á Hæstiréttur síðasta orðið um túlkun á 15. gr. og niðurstaða hans tekur vafalaust mið af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

Eftir stendur að það er ekki sjálfgefið að menn fái hæli hér á landi sem pólitískir flóttamenn þótt þeir hafi komið hingað með ærnum kostnaði og fyrirhöfn. Fyrst verður að sannreyna framburð einstaklinga í hverju tilviki, leggja mat á aðstæður og bera þær saman við þann rétt sem íslensk lög veita flóttamönnum.