Meðferð á máli kúrdísks flóttamanns

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:52:52 (507)

1999-10-13 15:52:52# 125. lþ. 8.94 fundur 64#B meðferð á máli kúrdísks flóttamanns# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:52]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og lýsi jafnframt yfir miklum vonbrigðum með tilsvör hæstv. dómsmrh. Ætla mætti af frásögn hennar að hér sé verið að fást við sakamann. Þessi pólitíski flóttamaður, að eigin sögn, hefur því í engu verið látinn njóta vafans. Því árétta ég eftirfarandi spurningar:

1. Hvert var tilefni handtökunnar? Hvert var meint afbrot? Hver voru meint viðurlög?

2. Hversu margir hælisleitendur hafa fengið hér atvinnu- og dvalarleyfi á yfirstandandi ári og síðustu árum? Hversu mörgum pólitískum flóttamönnum sem hingað hafa sótt hefur verið snúið við í Leifsstöð?

Mér heyrist af viðbrögðunum og hinni stuttu ræðu hæstv. dómsmrh. að ætla mætti að Ísland væri býsna lokað þegar kemur að móttöku pólitískra flóttamanna og hælisleitenda. Ég lýsi yfir áhyggjum mínum með að við Íslendingar sem á hátíðarstundum og í alþjóðasamstarfi látum drjúgt með að við viljum bæta hag fólks sem á um sárt að binda, sem sætir kúgunum vegna skoðana sinna, litarháttar eða félagslegrar stöðu, bregðumst svona við þegar í harðbakkann slær.

Hugsum okkur kringumstæðurnar. Þessi maður leitar fyrst á náðir Amnesty International sem berst fyrir rétti fólks um víða veröld til þess að njóta sannmælis og er þaðan vísað til Rauða krossins sem um heim allan vinnur að mannúðarstörfum. Í kjölfarið kemur lögreglan og stingur honum í steininn. Þessi maður hefur vafalaust upplifað það í heimalandi sínu að það væru fyrstu aðgerðir yfirvalda, að stinga mönnum í steininn séu þeir ekki til friðs. Hann átti sennilega ekki von á því að á Íslandi yrðu það einnig fyrstu viðbrögðin.

Herra forseti. Hér er full ástæða til þess að fylgja málinu fast eftir og gaumgæfa hvers konar verklag og vinnubrögð eru viðhöfð í málum af þessum toga. Ég þakka því þessa umræðu.