Meðferð á máli kúrdísks flóttamanns

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:55:16 (508)

1999-10-13 15:55:16# 125. lþ. 8.94 fundur 64#B meðferð á máli kúrdísks flóttamanns# (umræður utan dagskrár), ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:55]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Útlendingur leitar hælis hér á landi og er meðhöndlaður eins og ótíndur glæpamaður. Það skiptir engu máli, hæstv. dómsmrh., hvernig það bar að að maðurinn kom hingað. Í sjálfu sér varðar okkur ekki um það. Það sem skiptir máli er hvað gerist þegar þessi maður kemur til Íslands. Og hvað gerist? Það er beðið um gæsluvarðhald yfir manni sem leitar hér pólitísks hælis. Það gerðist og um það snýst þetta mál, hæstv. ráðherra.

Hvernig stendur á því að mannréttindi þessa einstaklings sem hér um ræðir voru þverbrotin eins og málshefjandi hefur greint frá? Er það svo að Útlendingaeftirlitið hafi tekið upp ný vinnubrögð um móttöku þeirra sem hér leita hælis af pólitískum ástæðum? Ef svo er, væri þá ekki rétt að hæstv. dómsmrh. greindi frá því í hverju hinar nýju reglur eru fólgnar?

Sl. haust var undirritaður samningur milli dómsmrn. og Rauða kross Íslands um samstarf við móttöku fólks sem leitar hér hælis. Sá samningur byggir á langri hefð og mikilli reynslu Rauða krossins við að aðstoða flóttamenn. Er hið nýja verklag Útlendingaeftirlitsins í samræmi við gildandi samning og hefur það verið kynnt fyrir Rauða krossi Íslands?

Að lokum, herra forseti, er það auðvitað með hreinum ólíkindum að gengið skuli út frá því sem vísu að þeir sem hér leita hælis hafi eitthvað óhreint í pokahorninu og séu því best geymdir á bak við lás og slá. Stjórnmálamenn sem á tyllidögum guma af ást sinni á lýðræði og réttlæti geta ekki verið þekktir fyrir að líða mannréttindabrot sem þetta.