Meðferð á máli kúrdísks flóttamanns

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:57:23 (509)

1999-10-13 15:57:23# 125. lþ. 8.94 fundur 64#B meðferð á máli kúrdísks flóttamanns# (umræður utan dagskrár), RG
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:57]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson vakti hér máls á háalvarlegu máli. Ríkisstjórninni hefur gengið seint og illa að móta heildarstefnu í málefnum flóttamanna. Nú er ljóst að einstaklingur sem leitar hér hælis nýtur ekki þeirrar réttarverndar sem flóttamannasamningur Sameinuðu þjóðanna kveður á um.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa ítrekað borið fram fyrirspurnir um mál flóttamanna og rekið á eftir endurskoðun laga um eftirlit með útlendingum og því að heildarstefna verði mörkuð í málefnum flóttamanna.

Við höfum spurt hvort tryggt verði að allir sem leita hér hælis fái túlk, ráðgjöf og réttaraðstoð, og hvort bann við brottvísun og endursendingu flóttamanna verði tryggt samkvæmt flóttamannasamningnum. En við létum okkur ekki detta í hug að spyrja hvort flóttamanni yrði stungið inn ef hann leitaði hér hælis. Það vekur furðu mína, herra forseti, að dómsmrh. segi rétt staðið að málum þegar einstaklingur sem hér leitar hælis er settur í fangelsi.

Á árunum 1990--1996 báðu 30 manns um hæli á Íslandi. Enginn þeirra fékk hæli en 10 þó dvalarleyfi af öðrum ástæðum. Öllum hinum var snúið aftur til þess lands sem þeir komu frá.

Orðin mannréttindi og lýðræði lýsa mikilvægustu þáttum mannlegs samfélags. Í þeim felst líka að vera með skýrar og réttlátar reglur um meðferð þeirra sem leita hér griðlands, reglur sem falla að alþjóðasamningum sem við höfum undirritað. Minnumst þess að tölur um flóttamenn í heiminum eru ógnvænlegar og að aðalástæða þess, gleymum því ekki, að fólk tekur sig upp og flýr heimaland sitt eru mannréttindabrot.