Meðferð á máli kúrdísks flóttamanns

Miðvikudaginn 13. október 1999, kl. 15:59:40 (510)

1999-10-13 15:59:40# 125. lþ. 8.94 fundur 64#B meðferð á máli kúrdísks flóttamanns# (umræður utan dagskrár), Flm. LB
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 125. lþ.

[15:59]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Ég verð líkt og fleiri sem hér hafa komið upp að lýsa gríðarlegum vonbrigðum yfir málflutningi hæstv. dómsmrh. Af málflutningi hennar að dæma er vart hægt að ímynda sér annað en hún geri sér ekki grein fyrir því um hvað málið snýst. Þetta mál snýst ekki um hvernig þessi viðkomandi einstaklingur kom til landsins. Það snýst fyrst og fremst um það hvernig íslensk yfirvöld meðhöndluðu hann. Hann er tekinn, settur í fangageymslu og úrskurðaður í gæsluvarðhald án þess að vera sakaður um nokkuð annað en að geta ekki gert nægilega grein fyrir sjálfum sér. Það, virðulegi forseti, telst ekki vera refsiverður verknaður, langt í frá.

Í öðru lagi, virðulegi forseti, telst það samkvæmt þjóðréttarreglum ekki refsiverður verknaður að koma ólöglega til lands hafi menn ástæðu til að ætla að lífi þeirra sé ógnað í heimalandi þeirra.

Það er einfaldlega þannig, virðulegi forseti. En að hæstv. dómsmrh. yfir Íslandi skuli koma hér og lýsa því yfir, virðulegi forseti, að mannréttindamál sem upp koma eigi ekki erindi í umræðu á Alþingi. Virðulegi forseti, ég hef miklar áhyggjur af hæstv. dómsmrh. og skyldi einhvern undra? Við tökum hér upp mál sökum þess að maður sem hingað kemur sem flóttamaður er settur í fangelsi án þess að vera sakaður um neitt en hæstv. dómsmrh. kemur hér upp og spyr: Hvaða erindi á þetta mál til umræðu hér í Alþingi?

Virðulegi forseti. Ég held að hæstv. dómsmrh. ætti að byrja á því að biðjast afsökunar á þessum ummælum. Þau kalla á að hún geri það.

Virðulegi forseti. Ég ítreka þær einföldu spurningar sem ég lagði fram. Ég óska eftir því að þeim verði svarað: Hverju sætti sú meðferð sem yfirvöld sýndu þessum manni? Um hvað var hann sakaður? Það hefur ekki komið fram enn, virðulegi forseti. Liggi það ekki fyrir er augljóst að stjórnvöld hafa þverbrotið mannréttindi.