Framlagning frv. til lokafjárlaga

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 10:32:21 (513)

1999-10-14 10:32:21# 125. lþ. 9.91 fundur 68#B framlagning frv. til lokafjárlaga# (aths. um störf þingsins), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[10:32]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil í upphafi þessa fundar leyfa mér að koma eftirfarandi á framfæri sem varðar störf þingsins og lögmælt samskipti fjmrn. og Alþingis.

Samkvæmt 7. gr. laga um fjárreiður ríkisins skal fjmrh. leggja endurskoðaðan ríkisreikning næstliðins reikningsárs fyrir Alþingi eigi síðar en tveimur vikum eftir að þing kemur saman. Með bréfi til forseta Alþingis hinn 12. ágúst sl. lagði ég fram endurskoðaðan ríkisreikning fyrir árið 1998 og kynnti hann jafnframt opinberlega. Samkvæmt 45. gr. tilvitnaðra laga skal fylgja ríkisreikningi frv. til lokafjárlaga honum til staðfestingar.

Í kjölfar umfangsmikilla kerfisbreytinga vegna nýrra fjárreiðulaga hefur orðið töf á lokafrágangi við sundurliðanir á fjármálum einstakra ríkisstofnana. Framsetningu á fjármálum stofnana hefur verið breytt. Fjöldi nýrra verkefna og sjóða koma nú fram í ríkisreikningi auk breyttrar framsetningar á rekstrartekjum. Því miður hefur ekki tekist að ljúka allri þessari vinnu þar sem nú er í fyrsta sinn unnið eftir nýjum reglum. Af þessu leiðir að framlagning frv. til lokafjárlaga fyrir árið 1998 tefst óhjákvæmilega að þessu sinni en stefnt er að því að leggja frv. fram fyrri hluta næsta mánaðar.

Hér er um vissa byrjunarörðugleika að ræða, herra forseti, m.a. vegna ýmissa álitamála sem upp hafa komið og taka þarf afstöðu til. Þess er hins vegar að vænta að frv. til lokafjárlaga muni framvegis koma fram innan téðs tímafrests.

Þetta vildi ég gera heyrinkunnugt hér á Alþingi enda þótt þetta sé málefni sem brennur kannski ekki á fjölda þingmanna.