Framlagning frv. til lokafjárlaga

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 10:34:22 (514)

1999-10-14 10:34:22# 125. lþ. 9.91 fundur 68#B framlagning frv. til lokafjárlaga# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[10:34]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir að koma hér undir liðnum um störf þingsins og greina þinginu frá þeirri töf sem verður á staðfestingarfrv. til lokafjárlaga. Það er ekki hægt að ræða hvaða áhrif það hefur eða hvort við viljum koma með athugasemdir eða innlegg vegna þessa. Ég held að það væri mjög mikilvægt að við þingflokksformenn gætum á fundi forseta farið aðeins yfir það hvernig þetta hefur verið áður og hvort þetta hafi einhver áhrif á fjárlagavinnuna. Um það get ég ekki sagt á þessu stigi málsins en mér finnst eðlilegt í kjölfar þessa að fjmrh. komi með þessa tilkynningu, að málið verði sett á dagskrá á fundi forseta með þingflokksformönnum.

Það hefur auðvitað oft gerst, herra forseti, að þingmenn eða þingflokksformenn hafi kallað eftir því ef ekki hefur verið búið að leggja fram mál lögum samkvæmt. Þess vegna finnst mér það skipta mjög miklu máli að fjmrh. skuli fara þessa nýju leið, að um leið og hann sér að hann muni ekki ná því á réttum tíma að leggja fram frv. til lokafjárlaga, greini hann þinginu frá því að það sé vegna byrjunarörðugleika, vegna þessara skipulagsbreytinga. Við þingmenn viljum auðvitað ljá öllu því lið er lýtur að samskiptum og góðum vinnubrögðum. Ég lýsi því þess vegna hér að ég mun skoða þetta með mjög jákvæðum huga og taka fyrir í þingflokki mínum. Mér finnst þetta góð vinnubrögð hjá fjmrh. en vil gjarnan að forseti setji þetta á dagskrá fundar með þingflokksformönnum.