Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 10:40:24 (519)

1999-10-14 10:40:24# 125. lþ. 9.3 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997# (munnl. skýrsla), HBl
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[10:40]

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Sú skýrsla umboðsmanns Alþingis sem hér er tekin til umræðu er fyrir árið 1997. Skýrsla þessi var lögð fram á síðasta þingi en ekki gafst tími til að ræða hana. Ég tel rétt að upplýsa að á vegum umboðsmanns Alþingis er nú unnið að undirbúningi þess að álit og aðrar afgreiðslur umboðsmanns sem hann ákveður að birta verði birtar á heimasíðu embættisins sem opnuð verður innan tíðar. Af þeim sökum hefur verið hugað að breytingum á formi þeirrar ársskýrslu sem umboðsmaður á skv. 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, að leggja árlega fyrir Alþingi. Frágangur á ársskýrslu umboðsmanns fyrir árið 1998 hefur því tafist en gert er ráð fyrir að sú skýrsla komi úr prentun í næsta mánuði og verði þá lögð fram á Alþingi.

Á árinu 1997 voru skráð hjá umboðsmanni Alþingis 360 ný mál og þar af voru 354 mál vegna kvartana. Sex mál tók umboðsmaður upp að eigin frumkvæði. Þetta er rúmlega 7% fjölgun mála frá árinu 1996. Fram kemur í skýrslunni að þessar tölur eiga aðeins við formlega skráð mál en algengt er að fólk komi á skrifstofu umboðsmanns eða hringi og beri þar upp mál sín og leiti upplýsinga. Starfsfólk umboðsmanns reynir eftir mætti að greiða úr slíkum erindum en þessi þáttur í starfi umboðsmanns er tímafrekur.

Á árinu 1997 störfuðu að jafnaði á skrifstofu umboðsmanns fimm starfsmenn auk umboðsmanns. Í ársskýrslu umboðsmanns eru, auk þess sem greint er frá niðurstöðu umboðsmanns í einstökum málum, birtar niðurstöður úttektar á afdrifum fyrstu 2.000 málanna sem lögð voru fyrir umboðsmann til úrlausnar og á viðbrögðum stjórnvalda við tilmælum hans. Þetta er fróðleg samantekt og sýnir að aðeins í undantekningartilvikum eða 5% þessara 2.000 mála hafa stjórnvöld beinlínis ekki farið að tilmælum umboðsmanns.

Eins og umboðsmaður bendir á í yfirliti sínu á bls. 9 í skýrslunni eru nokkur dæmi um að í viðræðum við fjölmiðla hafi stjórnvöld í fyrstu dregið niðurstöður umboðsmanns í efa og færst undan því að verða við tilmælum hans en síðan hafi þau látið af andstöðu sinni og leiðrétt mál án þess að það hafi komið fram opinberlega. Umboðsmaður bendir á að af þessum ástæðum hafi oft ekki legið skýrt fyrir hvaða árangur hafi orðið af störfum embættis umboðsmanns. Segir umboðsmaður að að hans dómi hafi þetta leitt til þess að stjórnsýslan í heild hafi oft sætt óréttmætri gagnrýni fyrir að fara lítt að tilmælum hans.

Ég fagna því að þessi úttekt var gerð og niðurstöður hennar birtar Alþingi. Af lestri samantektar um mál þar sem stjórnvöld hafa ekki farið að tilmælum umboðsmanns sést að nokkur þeirra hafa síðar farið fyrir dómstóla. Þar hafa þeir sem báru fram kvartanir við umboðsmann fengið hlut sinn réttan. Á það verður að leggja áherslu að þótt lög um umboðsmann Alþingis kveði ekki á um skyldu stjórnvalda til að fara að þeim tilmælum sem hann beinir til þeirra, þá eru þau lög byggð á því að stjórnvöld fari almennt eftir niðurstöðum í áliti umboðsmanns því að að öðrum kosti verður ekki sá árangur af starfi hans sem að var stefnt með því að veita borgurunum færi á að leita með úrlausnir stjórnvalda til slíks óháðs aðila.

[10:45]

Í skýrslunni er einnig samantekt á 45 málum sem umboðsmaður fjallaði um á árunum 1988--1997 og vakti athygli Alþingis á meinbugum á lögum á grundvelli 11. gr. laga nr. 85/1997. Þá er gerð grein fyrir því hvað gert hafi verið til að bæta úr hlutaðeigandi annmörkum. Eitt þessara mála var mér til áminningar um að því miður skortir stundum á að umbætur í löggjöf sem Alþingi hefur samþykkt skili sér nægjanlega fljótt í framkvæmd hjá hlutaðeigandi stjórnvöldum. Þarna vísa ég til máls sem rakið er á bls. 44 í skýrslunni um endurgreiðslu oftekins fjár. Þar vakti umboðsmaður árið 1993 athygli Alþingis á því að ekki nyti við settra lagareglna um endurgreiðslu ofgreiddra gjalda.

Með lögum nr. 29/1995, um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda, voru lögfest þau nýmæli að stjórnvöld sem innheimta skatta og gjöld skyldu endurgreiða það fé sem ofgreitt reyndist lögum samkvæmt ásamt vöxtum og stjórnvöld skyldu hafa frumkvæði að slíkum endurgreiðslum. Í júlímánuði sl. gerði umboðsmaður Alþingis forseta Alþingis grein fyrir því að við athugun hans á kvörtun sem barst síðla árs 1998 hafi komið í ljós að þrátt fyrir skýr lagaákvæði um skyldu innheimtumanna ríkissjóðs til að hafa frumkvæði að slíkum endurgreiðslum auk vaxta og þá afstöðu fjmrn. að ríkinu beri að hafa frumkvæði að slíku hefur verið misbrestur á framkvæmd þessa. Þannig kom fram í bréfi fjmrn. til umboðsmanns dags. 12. maí 1999 að innheimtumenn ríkissjóðs hefðu almennt ekki reiknað vexti á inneignir sem mynduðust við endurákvörðun opinberra gjalda. Voru af hálfu umboðsmanns gerðar athugasemdir við þessa framkvæmd mála í áliti sem hann sendi fjmrn. 12. júlí 1999.

Ég tek fram að fjmrh. tók síðan í framhaldi álitsins ákvörðun um að þær athugasemdir yrðu teknar til greina og bætt skyldi úr þeim annmörkum í framkvæmdinni. Þetta mál undirstrikar enn mikilvægi þess eftirlits sem umboðsmaður Alþingis hefur með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga.

Þau einstöku álit og niðurstöður frá árinu 1997 sem umboðsmaður gerir grein fyrir í skýrslu sinni fjalla um margvísleg svið stjórnsýslunnar en eins og sjá má í tölulegum yfirlitum um skiptingu mála eftir viðfangsefnum á bls. 16 í skýrslunni voru flestar kvartanir árið 1997 vegna tafa við afgreiðslu mála hjá stjórnvöldum eða 62 mál af 360. Næst komu skattamál og almannatryggingar eða 23 mál, hvor málaflokkur. Síðan það sem flokkað er undir málsmeðferð og starfshættir stjórnsýslunnar 20 mál og 18 mál eru vegna fangelsismála.

Án þess að ég ætli að fara að fjalla um einstök álit sem birt eru í skýrslunni tel ég sérstakt tilefni til að vekja athygli þingmanna á tveimur álitum sem fjalla um töku svonefndra þjónustugjalda en þessi mál eru á bls. 285 og 340 í skýrslunni. Ég nefni þessi mál sérstaklega þar sem þar eru af hálfu umboðsmanns skýrðar þær lagareglur sem fjalla um töku þjónustugjalda en við þingmenn þekkjum að þess gætir í auknum mæli að slík ákvæði sé að finna í þeim frv. sem við fjöllum um hér á Alþingi.

Ég vil að síðustu nota þetta tækifæri til að þakka umboðsmanni Alþingis, starfsmönnum umboðsmanns fyrir góð, árangursrík störf og trúnað við almenning.