Skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 10:49:02 (520)

1999-10-14 10:49:02# 125. lþ. 9.3 fundur 66#B skýrsla umboðsmanns Alþingis 1997# (munnl. skýrsla), VS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[10:49]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Skýrsla umboðsmanns Alþingis fyrir árið 1997 var tekin fyrir á fundi allshn. 11. október sl. Nefndin hefur á undanförnum árum fjallað um skýrslu umboðsmanns Alþingis enda er um að ræða mikilvægan þátt í eftirliti Alþingis með stjórnsýslunni.

Á fundinn kom til viðræðna við nefndina um efni skýrslunnar settur umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, sem gegnir störfum umboðsmanns í fjarveru Gauks Jörundssonar.

Í lögum um umboðsmann Alþingis er gert ráð fyrir að það sé hlutverk umboðsmanns að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins og jafnræðis sé gætt í stjórnsýslunni og hún fari að öðru leyti fram í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Í skýrslu umboðsmanns kemur fram að ný mál hjá embættinu árið 1997 voru 354 samanborið við 334 árið 1996. Málafjöldi hefur haldist nokkuð stöðugur síðan 1994 en afgreiðslutími mála hefur þó lengst nokkuð milli ára. Ekki hefur gengið nægilega vel hjá embættinu að stytta hann, en mikilvægt er að embættið hafi bolmagn til að takast á við öll þau mál sem því berast.

Það var ákvörðun Alþingis fyrir réttum 12 árum að opna borgurum landsins þá leið að geta leitað úrlausnar sinna mála hjá umboðsmanni Alþingis. Eitt af meginmarkmiðum Alþingis með stofnun embættisins var að auka eftirlit sitt með stjórnsýslu landsins og bæta hana um leið. Allshn. vill leggja áherslu á mikilvægi þess að markmið um bætta stjórnsýslu náist, einstaklingar geti fengið úrlausn sinna mála með því að leita til embættis umboðsmanns í stað þess að fara í dómsmál sem er mun kostnaðarsamara og tímafrekara. Til að uppfylla þetta markmið verður einnig að haldast gott samband milli embættisins og stjórnvalda og þau síðarnefndu að bregðast skjótt og vel við fyrirspurnum umboðsmanns um einstök mál.

Í máli umboðsmanns kom fram að ákveðin atriði væru meira áberandi en önnur sem ástæða kvartana sem honum berast. Of mikið er um að ekki sé farið eftir þeim formskilyrðum sem stjórnsýslulögin setja þannig að tímafrestir og önnur formskilyrði eru ekki virt. Það verður að telja mikilvægt að starfsmenn stjórnsýslunnar þekki vel reglur stjórnsýsluréttar og gæti þess að afgreiða ekki mál frá sér nema vel ígrunduð og gæti vel að því að öllum málsmeðferðarreglum sé fylgt.

Einnig kom fram í máli umboðsmanns að mikill þungi væri af skatta- og gjaldamálum og þau mál væru þess eðlis að fara þyrfti vel ofan í saumana á þeim. Vegna anna hefur hins vegar ekki gefist nægilegt tóm til að skoða þau mál svo að fullnægjandi teldist en lengi hefur verið talin þörf á að gera almenna úttekt á þeim burt séð frá kvörtunum.

Hann nefndi einnig að almannatryggingar væru málaflokkur þar sem fjölmörg álitaefni væru til staðar sem þörf væri á að umboðsmaður tæki til skoðunar að eigin frumkvæði, en því hefur ekki verið komið við vegna anna hjá embættinu.

Að lokum, herra forseti, vil ég þakka umboðsmanni Alþingis fyrir greinargóða skýrslu og taka undir með nefndarmönnum í allshn. sem lýstu yfir almennri ánægju með störf umboðsmanns og þá réttarbót sem tilkoma embættisins hefur haft í för með sér fyrir hinn almenna borgara.