Starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998

Fimmtudaginn 14. október 1999, kl. 11:54:42 (534)

1999-10-14 11:54:42# 125. lþ. 9.4 fundur 67#B starfsskýrsla Ríkisendurskoðunar 1998# (munnl. skýrsla), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 9. fundur, 125. lþ.

[11:54]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Í lögum um Ríkisendurskoðun sem síðast voru endurskoðuð árið 1997 er hinn rauði þráður sjálfstæði þessarar stofnunar og þess embættis sem ríkisendurskoðandi er, sjálfstæði fyrst og síðast gagnvart þeim aðilum sem honum ber að endurskoða hjá og þá einkum og sér í lagi framkvæmdarvaldinu, ríkisvaldinu, ráðuneytunum og undirstofnunum ríkisvaldsins. En einnig er rétt að halda því til haga að ríkisendurskoðandi hefur samkvæmt lögum einnig ákveðið sjálfstæði gagnvart Alþingi þó að í sömu lögum sé kveðið á um að hann heyri undir stjórn þingsins. Sjálfstæði hans gagnvart þinginu er hins vegar tilgreint og honum veitt talsvert sjálfdæmi um það hvar hann ber niður í sinni endurskoðunarvinnu hverju sinni.

Á hinn bóginn eru hin beinu tengsl þings og Ríkisendurskoðunar fólgin í því að þingmönnum, eins og hæstv. forseta er kunnugt, gefst kostur á að leita til Ríkisendurskoðunar með tiltekin verkefni og óska þess að hann fari ofan í þau og skoði þau eftir efnum og ástæðum hverju sinni. Til þessara ráða hafa þingmenn gjarnan leitað og ekki síst vill það vera þrautalending stjórnarandstöðu hverju sinni þegar illa gengur að afla hlutlægra upplýsinga úr herbúðum hæstv. ráðherra. Stundum fást alls engar. Þá er leitað atbeina ríkisendurskoðanda til þess að kanna mál og fara ofan í saumana á þeim og miðla þeim upplýsingum síðan til hins háa Alþingis.

Þetta ferli allt saman sem ég hef á mjög einfaldan hátt farið yfir hefur um margt og að flestu leyti gengið prýðilega fram. Það er hins vegar lykilatriði í þessu stjórnkerfi að sjálfstæði Ríkisendurskoðunar sé yfir allan vafa hafið og að hann sem slíkur og starfsmenn hans geti starfað allsendis óháðir utanaðkomandi þrýstingi, beinum og óbeinum. Þess vegna var það hárrétt hjá hv. síðasta ræðumanni þegar hún kom inn á það sem gerðist fyrir örfáum árum, að upplýst var að ríkisendurskoðandi sjálfur hefði fjárhagslega hagsmuni prívat og persónulega, þ.e. hann fékk prívat og persónulega greitt fyrir ákveðna endurskoðunarvinnu sem stofnunin sjálf kom að. Þar er ég að vísa til endurskoðunarvinnu hjá ríkisbönkunum. Eftir því sem ég best veit hefur þetta verið aflagt með öllu og ríkisendurskoðandi upplýst um það.

En það er ekki eingöngu að ríkisendurskoðandi þurfi að vera óháður fjárhagslega gagnvart þeim stofnunum sem hann endurskoðar hjá heldur þarf hann líka að vera það á pólitískum forsendum. Það ber einkar vel í veiði við þessa umræðu að hér skuli staddur hæstv. samgrh. því að ég vildi víkja nokkrum orðum að tíðindum sem áttu sér stað nú síðsumars þegar ríkisendurskoðandi var kallaður til starfa af framkvæmdarvaldinu, í þessu tilfelli hæstv. samgrh. sem setti af stað vinnuhóp eða pólitíska ráðgjafarnefnd sem hafði og hefur það verkefni að leita svara og afla tillagna til handa samgrh., þ.e. svara við mjög vel rökstuddum og ítarlegum ábendingum og athugasemdum frá Samkeppnisstofnun.

Ég gerði þá þegar strax athugasemd við þetta ráðslag og taldi að í þessu stóra máli sem laut að fjarskiptamálum Íslendinga, sem eru í örri þróun og hafa tekið miklum breytingum og eiga eftir að taka enn frekari breytingum ef málum vindur fram eins og lýst hefur yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar, væri ákaflega óeðlilegt að ríkisendurskoðandi, sem væri fyrst og síðast starfsmaður þingsins en þó allra helst sjálfstæður aðili og úrskurðaraðili, færi á frumstigi máls í vinnu fyrir framkvæmdarvaldið.

[12:00]

Ég velti því upp þá þegar og geri það enn og aftur hver staða Alþingis verður þegar þessi mál munu koma til kasta þingsins, sem þau munu óhjákvæmilega gera, hugsanlega núna strax á haustþingi en a.m.k. á yfirstandandi vetri. Ég spurði: Hvert á Alþingi þá að leita til þess að afla sér hlutlægra upplýsinga og álits á því flókna viðfangsefni sem fjarskiptin annars eru? Ég tók þetta mál upp í forsn. en varð undir í henni og virði auðvitað meiri hluta hennar eins og meiri hluta yfirleitt. Hins vegar tel ég óhjákvæmilegt annað en að halda þessu ákvæði til haga. Ríkisendurskoðandi lýsti því sjálfur opinberlega að hann teldi það til starfsskyldna sinna að taka þátt í faglegri pólitískri ráðgjafarnefnd með sérvöldum aðilum sem hæstv. samgrh. kallaði til verka til þess að svara athugasemdum annarrar eftirlitsstofnunar ríkisvaldsins, Samkeppnisstofnunar. Ég velti því fyrir mér hvernig fyrir stjórnsýslunni væri komið við þessar aðstæður.

Ég spyr eftir því hvort þessi pólitíska ráðgjafarnefnd sé enn til staðar og enn á lífi. Það lá ekki fyrir á þeim tíma að henni hefði verið sett neitt sérstakt skipunarbréf. Það lá heldur ekki fyrir skriflega um verkefnaramma þessarar ráðgjafarnefndar sem ríkisendurskoðandi tók þátt í. Það lá heldur ekki fyrir um hugsanlega þóknun til nefndarmanna og ég vil nota ferðina og spyrja hæstv. samgrh. af því að hann er við umræðuna, og ég þakka honum það, hvernig þessum málum er nú hagað og hver er staða þeirra.

Ég er ekki út af fyrir sig að áfellast hæstv. ráðherra fyrir þetta. Það kann að vera að fljótræði og ókunnugleiki hafi ráðið för hjá honum ellegar það, eins og hann lýsti sjálfur opinberlega, að hann teldi málum vel fyrir komið í höndum ríkisendurskoðenda og annarra nefndarmanna. Út af fyrir sig ætla ég ekki að deila um það en stóra viðfangsefnið er það sem ég hef hér verið að lýsa, og er ekki á hans könnu fyrst og síðast, hvernig Alþingi stendur að vígi gagnvart ríkisendurskoðanda og verkhæfni hans í þessu stóra máli. Hann er ekki lengur hlutlaus umfjöllunaraðili eins og honum ber að vera gagnvart Alþingi. Ég vildi óska þess að hæstv. samgrh. legði umræðunni lið með því að svara þeim fyrirspurnum sem ég hef beint til hans í þessum efnum.

Í öðru lagi er rétt að nefna það líka og það er kannski ekki óeðlilegt að úrskurðir og álitsgerðir Ríkisendurskoðunar séu ekki alltaf hafnar yfir gagnrýni. Ríkisendurskoðandi er enginn dómstóll og eðli máls samkvæmt er sjálfsagt og eðlilegt að framkvæmdarvaldið taki upp rökræður við hann um þær niðurstöður sem hann kemst málefnalega að hverju sinni og það hefur verið gert og undan því er ekkert að kvarta.

Á hinn bóginn er óhjákvæmilegt annað en rifja það upp líka að Alþingi hefur ekki ævinlega verið jafnánægt með vinnubrögð þessarar stofnunar og þess er skemmst að minnast í lok síðasta kjörtímabils þegar ríkisendurskoðandi tók að sér það verkefni að fara yfir og gefa álit og upplýsingar um málefni Stofnfisks, að hið háa Alþingi fékk ritskoðaða pappíra af hálfu ríkisendurskoðanda þar sem heilu blaðsíðurnar voru yfirstrikaðar og einstaka setningar sömuleiðis. Það voru vinnubrögð sem þá voru gagnrýnd og eru enn og aftur. Það á ekki að vera á verksviði Ríkisendurskoðunar að standa þannig að verki eins og gert var þar. Að öðru leyti ætla ég ekki að endurtaka þá umræðu sem þá var ítarleg og talsvert heitfengin.

Það er eins og ég segi mjög mikilvægt að rekstur og vinnubrögð Ríkisendurskoðunar séu hafin yfir alla gagnrýni. Ég rifja það upp og vísa til skýrslunnar á bls. 15 þar sem farið er yfir útboð á endurskoðunarþjónustu sem var sannarlega farið í. Stundum hefur verið haft á orði að ekki sé alveg nægilega skýrt og ljóst hver sé í raun hin endanlega ábyrgð Ríkisendurskoðunar sem stofnunar á þeirri endurskoðunarvinnu sem sjálfstætt starfandi endurskoðendur annast þegar um útboð er að ræða eins og gert hefur verið gagnvart stórum fyrirtækjum, samanber viðskiptabönkunum. Ríkisendurskoðandi áritar reikningana en er hann í raun ábyrgur fyrir þeirri endurskoðun eður ei? Þetta hefur verið dálítið á reiki. Hins vegar er ekkert á reiki og alveg ljóst og kýrskýrt að þegar ríkisendurskoðandi hefur falið með beinum samningum óháða endurskoðendur að annast tiltekna endurskoðun tiltekinna ríkisaðila á tilteknum sviðum er það gert í umboði hennar og það er Ríkisendurskoðun sjálf sem er hinn endanlegi ábyrgðaraðili.

Hins vegar er einnig ástæða til að nefna það að kaup á útseldri þjónustu endurskoðunarskrifstofa hér og þar þarf að vera yfir alla tortryggni hafin. Auðvitað er samkeppni um þessa bita í okkar litla landi og ég eins og fleiri þingmenn væntanlega hafa vafalaust heyrt það beint eða óbeint að margir vilji komast á þessa jötu eins og ríkisjötuna yfirleitt. Það er því er mikilvægt að öll þessi viðskipti við óháðar endurskoðunarskrifstofur séu fyrir opnum tjöldum og liggi ljóst fyrir hverjir fá og hverjir ekki og hvernig þessum samningum sé að öðru leyti hagað. Ég held hins vegar að í langflestum tilfellum sé affarasælast að starfsmenn Ríkisendurskoðunar sjálfir vinni þessa grunnvinnu að sem mestu leyti þó að ég vilji ekki undanskilja að á tilteknum sviðum þurfi að leita sérfræðiaðstoðar utan stofnunar og ber auðvitað að gera það undir slíkum kringumstæðum.

Að lyktum, herra forseti, er aldrei nógsamlega undirstrikað að rekstur og vinnubrögð Ríkisendurskoðunar séu yfir alla tortryggni hafin. Það sama gildir um rekstur stofnunarinnar sjálfrar. Ég tek eftir því að rekstrarreikningur þessarar stofnunar er settur upp með eilítið öðrum hætti en ríkisendurskoðandi sjálfur gerir gagnvart ríkisreikningi. Það hefði verið ljósara og skýrara að minni hyggju ef í þessum rekstrarreikningi og reikningum stofnunarinnar væri að finna fjárlagatölurnar til hliðsjónar þannig að menn sæju þar svart á hvítu um rekstrarárangurinn. Það verður að segja þá sögu eins og hún er að þessi stofnun, Ríkisendurskoðun, hefur orðið fyrir því hinu sama og aðrar ríkisstofnanir nú á síðustu tímum frjálsra samninga, aðlögunarsamninga og árangurssamninga og hvað þetta nú allt heitir með þeim afleiðingum að þessari stofnun eins og ríkisstofnunum yfirleitt hefur gengið illa að halda sig innan ramma fjárlaga. Það er bara alls ekki nógu gott. Þessi stofnun á auðvitað að vera fyrirmynd annarra og hún vill vera það og hefur gjarnan verið það í gegnum tíðina. Á síðustu missirum hefur þó brugðið til verri tíðar í þeim efnum, kannski einkum og sér í lagi vegna þess að stofnunin hefur farið inn á sömu launastefnu og sömu vinnubrögð og fjmrn. hefur boðað. Hins vegar er mjög nauðsynlegt að stofnunin sé hin besta fyrirmynd annarra í þessum efnum sem öðrum.

Að öðru leyti vil ég láta í ljósi ánægju mína í heild og breidd með verklag Ríkisendurskoðunar og vinnubrögð í öllum aðalatriðum. Ég held að þessi stofnun sé þinginu mjög mikilvæg í alla staði. Þingið hefur innan vébanda sinna, þó að það hafi lagast talsvert á síðustu árum, ekki allt of marga sérfræðinga á þeim sviðum sem Ríkisendurskoðun hefur vinnu við, þá á ég við hið stjórnarskrárbundna hlutverk Alþingis að hafa eftirlit með ríkisvaldinu og starfsemi þess. Ríkisendurskoðun hefur því gjarnan verið sú leið sem þingmenn og hið háa Alþingi hafa farið til þess að veita þetta aðhald og afla nauðsynlegra upplýsinga.